Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 27
27
sér út á haf. Textinn staðsetur ferðalangana í jaðarlandslagi í framúrstefnu-
legu landi: „Ísland er á heillandi hátt á brúninni og óhefðbundið.“66
Samantekt
Undir fyrirsögninni „Remote, rough and romantic“ lýsir Katla Kjartans-
dóttir þjóðfræðingur því hvernig náttúrunni, með allt að því töfra ívafi, er
enn teflt fram í íslenskum kvikmyndum sem andstæðu við áreiti borgarlífs-
ins.67 Hún bendir einnig á hvernig menningartengd ferðaþjónusta sem
gerir út á menningararfinn viðheldur þessari mynd.68 Niðurstaða Kötlu
er að hefðbundnar hugmyndir Herders og Fichtes um náttúru, tungumál
og menningararf sem meginstreng þjóðarinnar séu enn áberandi í hug-
myndum um Ísland, bæði Íslendinga og annarra. Katla veltir takmarkaðri
nýbreytni fyrir sér og spyr hvort þessi framsetning eigi enn við í marg-
þættu íslensku samfélagi dagsins í dag.69 Þetta er fyllilega réttmæt spurn-
ing og vera má að svarið sé að finna í umfjöllun Kristins Schram þar sem
hann bendir á hvernig staðsetningin sem birtist í markaðssetningu þjóð-
arímyndar Íslands er í samræmi við væntingar. Niðurstaða mín er að sú
sjálfsmynd sem birtist í kynningu Íslands á bókasýningunni bendi til þess
að Ísland hafi tileinkað sér gamlar gagnímyndir, sem eru byggðar á evr-
ópumiðaðri skiptingu rýmis í miðju og jaðar, ásamt hugmyndum um tíma
sem hafa viðhaldið alþjóðlegri stigskipan. Áhrif umhverfisins á framsetn-
ingu sjálfsmyndar þjóðar má glöggt sjá í umfjöllun um íslenska skálann og
efni frá honum, gagnímyndirnar eru ræddar og túlkaðar í frjóu millirými
þar sem styrkurinn og tækifærin felast í hinu ófyrirséða. Leikurinn að
staðsetningunni á milli rýma, samsömun við heterótópíska þætti og þriðju
staðsetninguna, getur rofið hugmyndina um tvenndarpörun hugtaka og er
fyrirboði áhugaverðra og nýrra sjónarhorna. Staðsetningin býður þó upp
á hættu á stöðnun vegna neitunar- eða speglunareiginleika gagnímynd-
66 Sjá The Toronto Star: http://www.icelandtouristboard.com [sótt 31. desember 2011].
Textinn er svona á frummálinu: „There’s something fascinatingly on the edge, and
edgy, about Iceland.“
67 Katla Kjartansdóttir, „Remote, Rough and Romantic: Contemporary images of
Iceland in Visual, Oral and Textual Narrations“, Images of the North. Histories –
Identities – Ideas. Studia imagologica 14 2009, ritstj. Sverrir Jakobsson, bls. 271–280,
hér bls. 277.
68 Sama heimild.
69 Katla Kjartansdóttir, „Remote, Rough and Romantic: Contemporary images of
Iceland in Visual, Oral and Textual Narrations“, bls. 279.
ÍSLAND SEM RýMI ANNARLEIKANS