Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 40
40
hin skringilegu dýr og fiskar, sem á síðari árum hefur verið sleppt út úr
örk þeirri, sem nefnd er „hin konunglega danska postulínsverksmiðja“ í
Kaupmannahöfn“.25 Greinarhöfundur gerir mikið úr ágæti og sérstöðu
danska postulínsins en meginhluti greinarinnar segir frá kynnisferð í verk-
smiðjurnar eftir að hann hafði komist að raun um hversu áfjáðir Parísarbúar
voru í framleiðsluna. Vinsældirnar voru raunar ekki bundnar við „borg
tízkunnar“ að sögn höfundarins, því góður orðstír danska postulínsins
hafði borist víða og eftirspurnin var mikil, ekki einungis meðal Frakka
heldur einnig í Englandi, Þýskalandi og Rússlandi.26
Ósennilegt verður að teljast að postulínshundar hafi prýtt heimili margra
Íslendinga fyrir aldamótin 1900 nema þá helst sem stofustáss í híbýlum
góðborgara. Sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson og eiginkona hans Ingibjörg
Einarsdóttir áttu slíkan hund27 og annan var að finna á heimili Valtýs
Guðmundssonar og önnu Jóhannsdóttur sem bjuggu við Amagerbrogade
í Kaupmannahöfn. Auk þess að vera alþingismaður var Valtýr dósent í
íslenskri sögu og bókmenntum við Hafnarháskóla og má því ætla að hann
hafi búið að því menningarauðmagni sem fylgdi samfélagslegri stöðu hans.
Til er lýsing Huldu Á. Stefánsdóttur, síðar skólastjóra, á heimilinu þar
sem hún dvaldi um skeið árið 1916. Anna var þá fallin frá fyrir alllöngu. Í
endurminningum sínum segir Hulda: „Í skrifstofunni var stór gifsmynd,
brjóstmynd af Jóni Sigurðssyni. Þá voru þarna uppi við nokkrar myndir.
[…] Síðast en ekki síst skal getið þess gripsins, sem kunnastur er, en það
var mikill postulínshundur, sem þau hjónin höfðu fengið í brúðargjöf [árið
1889]. Þetta er tvímælalaust frægasti postulínshundur Íslandssögunnar.“28
Frægð hundsins má helst rekja til Alþingisrímnanna sem ortar voru um
aldamótin 1900 um það leyti sem Valtýr var mjög áberandi í stjórnmálalífi
landsins. Þar segir:
Stóð á ofni hundsmynd hátt í herberginu,
hafði gull á hvítu trýni;
hundurinn var úr postulíni.29
25 Ísland 17. september 1889, bls. 142.
26 Sama heimild.
27 Páll Björnsson, Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar, Reykja-
vík: Sögufélag, 2011, bls. 63.
28 Hulda Á. Stefánsdóttir, Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur, II. bindi, Æska, Reykja-
vík: örn og örlygur, 1986, bls. 164–165.
29 Alþingisrímur 1899–1901, Vilhjálmur Þ. Gíslason sá um útgáfuna, Reykjavík:
Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1951, bls. 15.
ÓlAfuR RAStRick