Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Síða 43
43
barmi Almannagjár í öndvegi á einkennismerki hátíðarinnar, til að gera
borðbúnaðinn íslenskan í hugum manna.
Auðlegð íslenskrar menningar
Um leið og Þorkell Jóhannesson kallaði eftir rannsóknum á íslenskri list
og þjóðmenningu fyrri alda vildi hann skera upp herör gegn postulíns-
meindýrum og öðrum ósmekklegum og spillandi fylgifiskum þeirra: „Burt
með gljámyndirnar af Kristi, Napoleon og bjánalegum hjásetumönnum
í einhverju, sem á að líkjast Alpafjöllunum! Burt með postulínshunda og
illa saumaðar myndir eftir rammvitlausum póstkortum!“34 Í huga Þorkels
var þessi varningur ómenning sem menningarlega þenkjandi einstaklingar
hafa löngum skipst á að skilgreina. Á þriðja áratugnum taldist til ómenn-
ingar fjölbreytt úrval menningarafurða sem litið var á sem siðspillandi
afsprengi erlendrar sníkjumenningar, eins og djasstónlist og expressjón-
ismi – að ónefndri kventísku þessara ára.35 Hér þurfti að ráðast í átak:
„Íslensk alþýða“, sagði Þorkell, „á ekki lengur að vera til athlægis vegna
skorts á fyrirmyndum, skorts á smekk, vegna aumingjalegrar eftirlíkingar
útlendrar og hálfútlendrar smáborgaramenningar, sóttrar í „stássstofur“
sjóþorpanna.“36 Það þurfti að ráðast í átak til að snúa við þeirri hnignun
sem átt hafði sér stað meðal almennings á Íslandi.37
Um leið og postulínshundurinn var dæmdur í flokk ómenningar sá
Þorkell fyrir sér enduruppgötvun þeirra verðmæta sem hundurinn og
gljámyndirnar voru talin hafa rutt úr vegi á íslenskum sveitaheimilum.
Hugmyndin var sú að með rannsóknum á íslenskri list og íslenskri þjóð-
menningu mætti hefja gleymt handverk og listmuni til vegs og virðingar
og gera að fyrirmyndum handa íslenskum almenningi. Það þurfti að end-
urskilgreina menningarlegt gildi ýmissa muna sem íslenskur almenningur
virtist hafa kastað fyrir róða sem úreltum og ónýtum eftir að hann komst í
34 Þorkell Jóhannesson, „Íslenzk list“, bls. 307.
35 Sjá t.d. Alexander Jóhannesson, „Um málaralist nútímans“, Eimreiðin 28/1922, bls.
14–24; Björgvin Guðmundsson, „Hugvekja“, Heimskringla 5. nóvember 1925, bls.
5 og 12. nóvember 1924, bls. 4; Guðmundur Finnbogason, „Um andlitsfarða“,
Iðunn 8/1923–1924, bls. 98–112 og „Hárið“, Vaka 4/1927, bls. 382–384.
36 Þorkell Jóhannesson, „Íslenzk list“, bls. 307.
37 Þessa hugmynd um hnignun má tengja menningarlegri svartsýni áranna eftir
heimsstyrjöldina fyrri sem birtist m.a. í riti Oswalds Spengler, Der Untergang des
Abendlandes (1918–1923). Um viðtökur þess á Íslandi, sjá Sigríður Matthíasdóttir,
Hinn sanni Íslendingur, bls. 118–123; sjá einnig Ólafur Rastrick, Íslensk menning og
samfélagslegt vald, bls. 105–120.
POSTULÍNSHUNDAR OG GLöTUÐ MEISTARAVERK