Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 60
60
„Heljar“ er hann kallar verkið eina af fyrstu atrennunum að módernisma í
íslenskum bókmenntum.33 Matthías Viðar Sæmundsson hafði nokkru fyrr
orðað þetta svo að Sigurður Nordal væri hefðbundinn höfundur sem skrif-
aði í samræmi við málhefð og stílvenju þótt hugmyndir hans um heim-
inn og stöðu mannsins væru nýstárlegar í samhengi síns tíma: „Upplausn
heimsmyndarinnar framkallaði ekki samsvarandi afstöðu til skáldskaparins
sjálfs.“34 Ástráður Eysteinsson segir að þessi orð megi einnig nota um
svokallaðar kreppusögur Gunnars Gunnarssonar frá seinni hluta annars
áratugarins og færir rök fyrir því „að skilgreiningu módernisma verði að
miða við uppnám og róttækni í merkingarmiðlun“ en þau einkenni megi
finna í Bréfi til Láru og Vefaranum mikla frá Kasmír þótt módernismi verði
ekki að viðmiði í íslenskri skáldsagnaritun fyrr en um miðjan sjöunda ára-
tuginn.35 Ef gengið er út frá þessari skilgreiningu má segja það sama um
ljóðin „Sorg“ eftir Jóhann Sigurjónsson og „Söknuð“ eftir Jóhann Jónsson
sem bæði birtust í Vöku 1927 og 1928, eins og áður kom fram. Vafalaust
hefur rímleysið, frjálsleg hrynjandin og á stundum torrætt myndmálið þótt
nýstárlegt en í þeim birtast ekki róttækar efasemdir um merkingarmiðl-
unina sem slíka.
Sigurður átti þó eftir að láta til sín taka í módernískum skáldskap.
Áhugavert er að skoða ólíkar myndir sem hann dregur upp af hlutskipti lista-
mannsins í tveimur skáldverkum, „Lognöldum“ sem birtist í Fornum ástum
og leikritinu Uppstigningu sem hann skrifaði árið 1945 og frumsýnt var sama
ár hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Verkin eiga margt sameiginlegt, segja í raun
sömu söguna en með ólíkum hætti. Bæði verkin fjalla um menn í blóma
lífsins, lækninn Agnar og prestinn Helga, sem ganga með skáld í maganum.
Báðir eru ókvæntir. Báðir glötuðu æskuástinni. Báðir fá tækifæri til þess að
endurheimta hana en klúðra því og sitja sárir eftir. Í báðum verkunum eru
ástarraunirnar þó aðeins baksvið annarra en misdjúpstæðra umbrota í sálar-
lífi þeirra Agnars og Helga, umbrota sem tengjast skáldadraumunum.
33 Jón Yngvi Jóhannsson, „Realism and Revolt: Between the World Wars“, A History
of Icelandic Literature, ritstj. Daisy Neijmann, Lincoln: University of Nebraska
Press, 2006, bls. 357–403, hér bls. 368.
34 Matthías Viðar Sæmundsson, „Að vera eða ekki. Um sögur eftir Gest Pálsson
og Sigurð Nordal“, Myndir á sandi. Greinar um bókmenntir og menningarástand,
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991, bls. 216–245, hér bls.
245.
35 Ástráður Eysteinsson, „Fyrsta nútímaskáldsagan og módernisminn“, Umbrot. Bók-
menntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, bls. 57–91, einkum 71 og
84.
ÞRöStuR HelGASoN