Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 66
66
lífsskoðun og fagurfræði sem Sigurður ýjar að hér birtist með ákveðnari
hætti í Uppstigningu fjórum árum fyrr.
Líkt og í „Lognöldum“ ryðst listin inn í hvunndagslíf (smá)borgara-
legs íslensks þorps í leikritinu. Einar er holdtekja hennar í sögunni en í
Uppstigningu birtist listin í líki ungrar konu, fröken Jóhönnu Einars (eftir-
nafnið er varla tilviljun), sem jafnframt er hin glataða æskuást séra Helga.
Átökin í framhaldinu eiga sér stað í bilinu á milli lífs og listar, rétt eins og
í sögunni. Koma Jóhönnu verður til þess að Helgi – og raunar fleiri íbúar
þorpsins – taka að velta fyrir sér „gildi og reynslukost[um] einstaklings-
ins“. Umfjöllunarefnið er því hið sama í verkunum en munurinn liggur
í gjörólíkri formlegri úrvinnslu. Frásagnarháttur „Lognalda“ er af hefð-
bundnum raunsæislegum toga en í formgerð Uppstigningar eru mörkin á
milli listar og lífs rofin með róttækum hætti sem setur merkingarmiðlun
verksins í uppnám og þar með skáldskapinn, veruleikaskynjunina og ekki
síst hlut(skipti) höfundarins í öllu þessu.
Leikritið gerist á tímabilinu frá byrjun júlímánaðar 1945 til uppstign-
ingardags 1946 og teygir sig því fram yfir ritunartíma sinn. Þegar það
hefst er séra Helgi staddur á fundi kvenfélags safnaðarins í þorpinu sem
heitir Knarrareyri. Umræðuefnið er ný altaristafla sem félagið ætlar að
gefa kirkjunni. Fundarmenn eru sammála um að verkið skuli vera af upp-
stigningunni þótt bent sé á að ef leitað verði til „verulegs listamanns“ sé
ekki víst „að hann kæri sig um of nákvæmt resept“ frá kaupendunum.49 Og
það er einmitt valið á listamanninum sem er helsta deiluefni fundarins. Ein
stingur upp á að fá danskan málara vegna þess að þeir „eru svo smekkleg-
ir“ en önnur bendir á „að nú [sé]u Íslendingar sjálfstæð þjóð“ og geti ekki
alltaf verið „með hugann í Kaupmannahöfn“ (238). Formaður félagsins og
altaristöflunefndarinnar, Fröken Johnson, segist ekki kunna að meta „þessa
íslenzku nýtískumálara“ þegar nafn eins þeirra, Kolbeins Halldórssonar, er
nefnt. Eftir nokkurt þóf um það hvort fólk þurfi að hafa verið í Ameríku
eða Danmörku til þess að átta sig á nútímalist stingur Fröken Johnson upp
á því að ramminn utan um verkið verði í það minnsta amerískur. Íslenskir
málarar hafi engan smekk fyrir þeim.
Í fyrirmælum fyrsta þáttar segir Sigurður að efnið í umræðum þessa
upphafs séu „algjör aukaatriði“ (234) en óþarfi er að taka mark á því.
Samræðurnar skipta máli í samhengi verksins vegna þess að efni þeirra
49 Sigurður Nordal, Uppstigning, í List og lífsskoðun, bls. 241. Í eftirfarandi umfjöllun
um leikritið verður vísað til þessa rits í meginmáli með blaðsíðutali innan sviga.
ÞRöStuR HelGASoN