Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Side 81
81
áratugi og gat orðið mjög þröngt. Árið 1949 má til dæmis sjá hann setja
fyrirvara við módernískan skáldskap í grein um T.S. Eliot í Tímariti Máls
og menningar en árið áður hafði skáldið fengið Nóbelsverðlaunin í bók-
menntum. Kristinn hampar ljóðum Eliots en segir hann á hröðum flótta
undan samtíðinni og samfélagslegum vandamálum, enda sé sjóndeildar-
hringur hans eingöngu heimur borgarastéttarinnar. Hann afhjúpi kreppu
borgarastéttarinnar og hæði en sé sjálfur „öllum þráðum tengdur þessu
dauðamerkta þjóðfélagi“.91 Í lok greinar fellir Kristinn þungan dóm um
skáldið en klykkir svo út með fremur óljósri yfirlýsingu um samfélagslegt
og sögulegt erindi skáldskaparforms Eliots:
Hann er borgaralegu afturhaldi í skoðunum og list hin öflugasta
stoð, hefur gegnsýrt heila kynslóð lífsótta sínum, dulhyggju og
bölsýni. En list hans, hið nýja hnitmiðaða form, leggur jafnframt
máttugasta vopn í hendur nýjum skáldum sem vilja beita því í þágu
framvindu mannkynsins.92
Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson segja í grein sinni, „T.S.
Eliot á Íslandi“, að kannski hafi Kristinn ekki í öndverðu verið „and-
snúinn módernisma eins og hann leggur sig“, en Eliot-greinin sýni „ber-
lega áhyggjur sem brutust fram nokkrum árum síðar, um miðbik sjöunda
áratugarins, í fordæmingu Kristins á módernískri byltingu í ljóðagerð og
tilraun hans til að ýta undir realíska skáldsagnagerð“.93
Þegar Vaki kom til sögunnar árið 1952 var vissulega enn nokkuð í land
með að einhver sátt myndaðist um módernisma í íslenskum bókmenntum
og listum. Það er þó ótvíræð merki að sjá um að móttökustöðvarnar hjá
forkólfum íslenskrar menningar hafi eftir lýðveldisstofnun verið stilltar
inn á nýjar rásir í sífellt auknum mæli. Það er engu líkara en þungu fargi
hafi verið létt af menningarlífinu. Þetta verður ekki aðeins merkt í til-
komu hinna róttæku menningartímarita, svo sem Vaka og Birtings eldri
(1953–1954) og yngri (1955–1968), heldur einnig í einstökum verkum.
Uppstigning Nordals var ekkert einsdæmi á bókmenntasviðinu eins og
fram kemur í fyrrnefndri grein Jóns Karls Helgasonar um verkið. Jón
Karl bendir á að árin 1945 til 1948 hafi óvenjumörg listaverk komið fram
91 Kristinn E. Andrésson, „Ljóðskáldið T.S. Eliot“, Tímarit Máls og menningar 3/1949,
bls. 290–299, hér bls. 299.
92 Sama heimild, sama stað.
93 Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson, „T.S. Eliot á Íslandi“, Skírnir haust
2008, bls. 417–418.
VAKA OG VAKI , UPPRISA OG UPPREISN