Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Side 113
113
leika og tilgang markhyggju. Í fyrsta lagi tel ég nokkuð augljóst að sú árás
sem markhyggja varð fyrir á sautjándu öld, og margir vísindasagnfræðing-
ar vitna enn í, byggðist á misskilningi. Auðvitað gengu margir heimspek-
ingar miðalda og á nýöld of langt í mannhverfingu (og raunar stundum
manngervingu) og öðrum hliðargreinum markhyggju, en kjarni hennar
stóð eftir. Í öðru lagi hafa menn gert lítið af því að skoða nákvæmlega hvað
andstæð kenning, þ.e. heimspeki sem hafnar allri markhyggju, felur í sér
hvað varðar frekari heimspekilegar vangaveltur. Það er einfaldlega gert ráð
fyrir því að nú sé heimsmyndin svona. En þá geta menn lent í erfiðleik-
um með að halda fram eðlishyggju eða útskýra einstakar verur sem verur.
Auk þess er sú samstaða um heimspekilega greiningu á orsakarhugtakinu,
sem fullkomin höfnun á tilgangsorsökum virðist fela í sér, ekki orðin að
veruleika. Í þriðja og síðasta lagi er að minnsta kosti mögulegt að setja
fram kenningu sem er andstæð því viðhorfi að tilgangsorsakir hangi utan á
áhrifsorsökum sem hreinn tilbúningur. Það virðist vera erfiðara að koma á
algerum aðskilnaði orsaka og ástæðna en margir telja, meðal annars vegna
þess að ástæður eru viðfang skilnings okkar en orsakir ekki. Hvað ef nátt-
úran – eðli allra hluta – er tilgangsmiðað lögmál um breytingar, en ekki
viðfang ómarkvissrar hreyfingar efnisagna? Aristóteles taldi slíka mynd
líklegasta til skilnings á náttúrunni. Andstæðingar hans verða að sýna fram
á hvernig sú leið að hafna markhyggju hafi fært okkur betri tengsl við nátt-
úruna.67
Ú T D R Á T T U R
Skynsemin í náttúrunni – Náttúruleg skynsemi
Fjölmörg rit um heimspeki- og vísindasögu eru sammála um að markhyggja hafi
horfið úr verkum helstu hugsuða um miðbik sautjándu aldar og að hún hafi ekki haft
hlutverki að gegna í fræðilegri hugsun eftir þann tíma. Í þessari ritgerð eru dregnar
í efa sögulegar forsendur þessarar skoðunar með því að skoða kunna gagnrýni á
markhyggju frá sautjándu öld. Í greininni er einnig hvatt til þess að fræðimenn at-
hugi nánar samband skynsemi, ástæðna og orsakarhugtaksins í nútímanum og að
lokum er þess spurt hvort sú leið að hafna markhyggju bjóði okkur virkilega upp á
skýrari og betri þekkingu á náttúrunni.
Lykilorð: markhyggja, heimspeki nýaldar, náttúra, orsakasamhengi, verufræði
67 Greinin er hluti stærri rannsóknar sem ég vinn að um hlutverk markhyggju í nátt-
úruvísindum, frumspeki og siðfræði samtímans. Þakkir til Gunnars Harðarsonar,
Jakobs Guðmundar Rúnarssonar og ritrýna tímaritsins.
SKYNSEMIN Í NÁTTÚRUNNI – NÁTTÚRULEG SKYNSEMI