Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 115
115
Ritið 1/2012, bls. 115–139
daisy Neijmann
Hringsól um dulinn kjarna
Minni og gleymska
í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar*
Stríðsbókmenntir skipa stóran sess í vestrænni bókmenntasögu á 20. öld.
Þar er fyrst og fremst fengist við þær hörmungar sem heimsstyrjaldirnar
tvær höfðu í för með sér; hetjuskap, hugleysi, villimennsku, kvalafulla val-
kosti, siðferðilegt öngþveiti, sektarkennd, baráttu upp á líf og dauða eða
einfaldlega listina að lifa af – og áhrif styrjaldanna á líf einstaklinga eða
samfélagshópa. Í mörgum Evrópulöndum hafa síðari heimsstyrjöldin og
afleiðingar hennar verið aðalefni, jafnvel þráhyggja, margra rithöfunda,
þar með talið yngri höfunda sem ekki höfðu beina reynslu af hörmungum
hennar. Á síðustu áratugum hefur einnig mikið verið rætt um það hvernig
sé hægt og hvort það sé siðferðilega rétt að færa stríðsreynslu í listrænan
búning skáldskapar.
Á Íslandi er þessu öðruvísi varið. Hér hafði stríð aldrei verið áþreif-
anlegur raunveruleiki fyrr en við hernám Breta í maímánuði 1940. Þá
hafði það sitt að segja að Ísland var hernumið af vinveittum her þrátt fyrir
formleg mótmæli ríkisstjórnar og andstöðu margra heimamanna. Í raun
hefur almennt verið litið á hernámstímann sem uppgangstíma og jafnvel
lögð meiri áhersla á innreið nútímans og efnahagslegar framfarir en á
neikvæð áhrif styrjaldarinnar. Þótt nokkrir skáldsagnahöfundar gerðu til-
raunir til að fást við reynslu Íslendinga af sjálfri styrjöldinni á sínum tíma,
hefur umfjöllunin, umræðan og athyglin hér á landi einkum beinst að
* Ég stend í þakkarskuld við Gunnþórunni Guðmundsdóttur og Jón Karl Helgason
fyrir vandlegan yfirlestur, góðar ábendingar, og aðstoð við að snúa nokkrum sér-
staklega flóknum hugtökum yfir á fallega íslensku.