Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 125
125
mér? Hvað viltu hrjóstrugu landi […]? Hvað veizt þú um baráttu lífs míns?
Og hvað veizt þú um líf og baráttu þeirrar þjóðar sem ég hef fóstrað í þús-
und ár?“ (SH 227). Allt er orðið Páli framandi, jafnvel landslagið og minn-
ingarnar sem einu sinni voru sameiningartákn þjóðarinnar; hann virðist
hvergi eiga heima lengur og engin furða þótt hann segist ganga um „eins
og ég væri að leita að einhverju sem ég hefði týnt“ (SH 228–229).
Móðir Páls dó þegar hann var tveggja ára og það eina sem Páll á eftir
hana, fyrir utan eina ljósmynd, er útsaumuð mynd af blágresi og punt-
stráum. Í raun virðist myndin vera eins konar táknmynd fyrir íslenska
náttúru sem heild. Ef við höfum í huga að Páll leitar griða í náttúrunni,
að hann þekkir aðeins til móðurættar sinnar, að hann hefur hvergi átt
eiginlega „heima“ nema hjá ömmu sinni á Djúpafirði („Ég … held heim-
leiðis – til ömmu“; G 19) og að hann lifir næstum því einungis eftir kenn-
ingum hennar, þá eru greinileg tengsl í sögunni milli náttúrunnar og
móðurmyndar Páls. Finnbogi Ingólfsson, tilvonandi skáld og síðar blaða-
maður sem Páll álítur andlegan bróður sinn, talar líka um að þeir eigi
að minnsta kosti eitt sameiginlegt, þessa svonefndu ættjarðarást, þetta
furðulega viðhorf til landsins, þessa væntumþykju, eða réttara sagt
þessa óútskýranlegu tilfinningasemi gagnvart upprunanum, sem er
einna líkust tengslum barns og móður. (DS 443–444)
Náttúran virðist, með öðrum orðum, ganga Páli í móðurstað eftir fráfall
móður hans og síðar ömmu og veita honum grið og öryggi frá stríðshrjáð-
um heimi sem er orðinn honum óskiljanlegur og ógeðfelldur. Til náttúr-
unnar sækir hann hugarró, þangað leitar hann til að losna tímabundið
við kvíða og ónot og finna aftur einhvers konar jarðsamband við tímann
og minningarnar. Þegar hann uppgötvar aðra gerð af útsaumuðu mynd-
inni, nákvæmlega eins og þá sem hann á sjálfur, álítur hann hana hafa
verið saurgaða af konu sem er eins konar persónugervingur nýja Íslands og
algjör andstæða móður sinnar – gráðug, glysgjörn, „ósvífin og slóttug“. Í
framhaldi kastar hann myndinni í hafið svo náttúran geti hreinsað hana og
endurskapað (DS 363).
Ljósmyndir tengjast hvað augljósast minninu. Þær fanga augnablikið.
Ljósmyndun er, með orðum Draaisma, efnafræðilegt minni (e. chemical
memory).28 Í hvert skipti sem Páli verður mikið um lítur hann á myndir
28 Metaphors of Memory, bls. 110. Sjá einnig Gunnþórunni Guðmundsdóttur, „Eins
og þessi mynd sýnir: falsaðar ljósmyndir og skáldskapur á ljósmynd“, Ritið 3/2004,
bls. 27–49.
HRINGSÓL UM DULINN KJARNA