Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Side 127
127
Eyða og fjarvera
Páll myndar einhvers konar andstæðu við þá uppgangstíma og þau umbrot
sem eiga sér stað í kringum hann. Á meðan allir (eða næstum því allir)
eru að reyna að græða á einhvern hátt þjáist hann af sektarkennd og beyg
sem hann kann lítil skil á. „Er eitthvað bogið við mig?“ spyr hann stöð-
ugt og kallar sjálfan sig „aula“, „rolu“ og „heigul“ (t.d. SH 50). Hann er
sífellt „daufur í dálkinn“, stríðsfréttir gera hann dapran, hann kann illa við
starf sitt sem og þær miklu breytingar á lífsháttum í samfélaginu sem hann
hefur orðið vitni að. Eins og áður var nefnt lifir Páll samkvæmt siðareglum
ömmu sinnar heitinnar frá Djúpafirði sem gerir hann að tímaskekkju í
borgarlífi nútímans og stundum tengir hann þetta tvennt: „Kom það ekki
til af uppeldi mínu og úreltum skoðunum, ef skoðanir skyldi kalla, að ég
var svona aumur og deigur, kunni ekki að lifa og þorði ekki að deyja? Eða
kom það til af einhverju, sem mér var hulið?“ spyr hann sjálfan sig (SH 51).
Steindór, sem segir honum hvað oftast til syndanna, virðist ekki í neinum
vafa um svarið við þessari spurningu:
Hafði sálin þá komið auga á megindrætti í hugmyndaheimi nú-
tímans? Svar: Hún hafði haft nasasjón af þeim […] Hafði þessi
nasasjón breytt hugmyndaheimi hennar sjálfrar, ef hugmyndaheim
skyldi kalla? Svar: ekki vitund! (SH 145)
Steindór kallar Pál „ömmudreng“ hvað eftir annað, og „signor Anakróníus“
(DS 474), en að hans mati þjáist Páll af „sjúklegu kjarkleysi“ og „þrútinni
samvisku“ af því að hann gengur „í andlegum blúndubuxum af ömmu
sinni“ (SH 148). Hann orðar það einnig svo að „torfaldar-öfl“ hafi sál Páls
„á valdi sínu“ (SH 147).
Höfuðeinkenni Páls sem persónu er vafalaust það að hann gerir aldrei
neitt í málunum. Í staðinn fyrir að takast á við lífið virðist hann láta það
bera sig áfram. Hann er sjónarvottur frekar en gerandi eða þátttakandi.
Hann gerir ekkert til að bæta úr vanlíðan sinni (hann gæti vissulega sagt
upp starfinu eða fundið leiðir til að hjálpa fólki í hernumdum löndum) og
hefur enga trú á að stjórnmálin geti komið samfélaginu á betri veg. Þegar
mest þrengir að leggur hann á flótta, helst út í náttúruna, en stundum byrj-
ar hann bara einfaldlega að hlaupa:
HRINGSÓL UM DULINN KJARNA