Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 153
153
barn, en tekst að sjálfsögðu ekki að finna hana. Flótti hans og ferðalag
á æskuslóðir er örvæntingarfullt og ábyrgðarlaust lokaúrræði og það er
undirstrikað í sjálfri frásagnaraðferðinni þar sem nafn Péturs er ekki notað
heldur orð með almennari skírskotun.
Þegar Pétur hefur keyrt með rútu langleiðina í dalinn þar sem hann
ólst upp fellur skriða á veginn og farþegarnir verða veðurtepptir í litlu
þorpi. Pétur leggur þá einn af stað fótgangandi yfir heiðina sem skilur
að þorpið og dalinn. Undireins og hann yfirgefur hina farþegana breytist
frásögn sögumanns í 2. persónu frásögn. Pétur er ennþá vitundarmiðja
sögunnar og þrátt fyrir ávarpið leikur lítill vafi á því að þú vísar til Péturs.
Aftur á móti er ekki á hreinu hver staða sögumannsins er eða hvers eðlis
samband hans og aðalpersónunnar er. Afar freistandi er að álykta að ávarp
sögumannsins sé sjálfsávarp, það er að Pétur sjálfur sé sögumaðurinn og
hafi verið það allan tímann. Það er þó ekki ótvírætt og túlkunin er undir
hverjum og einum lesanda komin.
Þegar þarna er komið sögu hefur lesandinn sjálfur einnig færst nær
Pétri og/eða sögumanninum. Fludernik hefur lagt sérstaka áherslu á ríkan
þátt lesandans sem er innbyggður í 2. persónu frásagnir en lesandi slíkra
texta á oftast auðvelt með að finna til samkenndar með persónunni sem
er ávörpuð eða finnast sögumaðurinn beinlínis vera að ávarpa sig. Oftast
áttar lesandinn sig á því að ávarpinu er ekki beint til hans þegar fram
koma upplýsingar varðandi þú-persónuna (kyn, aldur, staða og þess háttar)
sem gera hana sérstaka. Yfirleitt hættir ávarpið þá að virka á lesandann og
eftir því sem persónan sem ávörpuð er verður skýrari verður hún miðja
frásagnarinnar en ekki lesandinn.23 Lesandi Lifandi vatnsins − − − á ekki
í vandræðum með að sjá að frásögnin fjallar ennþá um Pétur þótt um 2.
persónu frásögn sé að ræða en engu að síður er hann orðinn svo nákom-
inn Pétri og/eða sögumanninum að ekki er ólíklegt að honum geti fundist
þessi orð eiga við sig:
Það ættu að vera blóm á leiði mömmu. Því það sem er þarna undir er
hluti af henni, hið eina áþreifanlega sem er eftir af henni, mömmu.
En mamma, hún er ekki hér. Hvar er hún þá? Hvar er allt sem var?
Hver ert þú og hvar ert þú staddur? Hvert ætlar þú? Þú veizt það
ekki. (180)
23 Monika Fludernik, Towards a ‘Natural’ Narratology, bls. 227–228.
„FORM OG STÍLL öRÐUGT VIÐFANGS“