Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Side 158
158
Ritdómarar nefna einnig hve tormelt bókin sé. Erlendur Jónsson segir
til dæmis að hún sé „lífsspekisaga, íhugunarverk, að ýmsu leyti merkasta
skáldverk Jakobínu til þessa þótt hún kunni að þykja erfið aflestrar og
engin skemmtilesning í samanburði við Dægurvísu“.31 Jakobínu var mikil
alvara með Lifandi vatninu − − − og ætlaðist örugglega alls ekki til að hún
væri skemmtilesning, enda vildi hún hafa áhrif á lesendur og taldi nýtt
form henta vel til að krefja lesendur umhugsunar. Lesandi Lifandi vatns-
ins − − − veit oft ekki hvort hann er utan huga aðalpersónunnar eða ekki
og hann þarf oft að staldra við og endurskoða afstöðu sína til textans.
Þegar hann er síðan sjálfur nánast dreginn inn í frásögnina undir lokin er
hlutdeild hans í frásögninni orðin býsna drjúg. Hin gríðarflókna og vand-
meðfarna frásagnaraðferð Lifandi vatnsins – – – er þannig alls ekki bara til
skrauts eða til að sýnast, heldur er hún þýðingarmikill hluti af viðfangsefni
og þema skáldsögunnar.
ÚTDRÁTTUR
„Form og stíll örðugt viðfangs“
Fjölradda frásagnir og Lifandi vatnið − − − eftir Jakobínu Sigurðardóttur
Þriðja skáldsaga Jakobínu Sigurðardóttur (1918−1994), Lifandi vatnið − − − (1974),
er afar flókið og margslungið verk, sérstaklega hvað varðar frásagnaraðferð. Þar er
blandað saman ýmsum tegundum texta og frásögnin er ekki 1. eða 3. persónu frá-
sögn heldur fjölradda (e. multipersoned narrative). Sögumaðurinn er heldur ekki allur
þar sem hann er séður og ekki er alltaf ljóst hvenig sambandi hans og aðalpersón-
unnar Péturs er háttað.
Í þessari grein er stuðst við kenningar fræðimannanna Moniku Fludernik
og Brians Richardson og fjallað um fjölradda frásögn Lifandi vatnsins − − −. Frá-
sagnaraðferðin þjónar mikilvægu hlutverki fyrir persónusköpun verksins því
ábyrgðarleysi og veruleikaflótti Péturs, brotin sjálfsmynd hans og geðveiki, er undir-
strikað í frásögninni sjálfri. Hin flókna frásagnaraðferð veldur því einnig að lesand-
inn þarf sífellt að staldra við og endurskoða afstöðu sína til textans og er þannig
hvattur til að vera virkur lesandi.
Lykilorð: Jakobína Sigurðardóttir, Lifandi vatnið − − −, frásagnarfræði, frásagnar-
aðferð, fjölradda frásögn
31 Erlendur Jónsson, „Maður hverfur“, Morgunblaðið, 19. desember 1974, bls. 25.
ÁStA kRiStíN BeNediktSdÓttiR