Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 161
161
Norbert elias
Af árásargirninni
og umbreytingum hennar
Ferill þýska félagsfræðingsins Norberts Elias (1897–1990) hefur verið kallaður
„einn sérstæðasti fræðimannsferill sem finna má á tuttugustu öld“.1 Þekktastur
er hann fyrir yfirgripsmikið rit sitt um „ferli siðmenningarinnar“, sem gefið
var út í Sviss árið 1939 undir heitinu Über den Prozeß der Zivilisation, en kaflinn
sem hér birtist í íslenskri þýðingu er sóttur í fyrra bindi þess rits.2 Elias var í
hópi þeirra fræðimanna af gyðinglegum uppruna sem flúðu Þriðja ríkið þegar
árið 1933 en bók sína um ferli siðmenningarinnar ritaði hann á Bretlandseyjum,
þangað sem hann hafði flust frá París. Elias dvaldi drýgstan hluta starfsævi sinn-
ar á Bretlandseyjum og í Hollandi, auk þess sem hann eyddi nokkrum árum sem
prófessor við Accra-háskólann í Ghana. Lítið fór fyrir lykilverki Elias við útgáfu
þess og það var í raun ekki fyrr en með endurútgáfu ritsins árið 1969 sem það
rataði inn í fræðaumræðuna, eftir að Elias hafði haldið áfram að þróa kenningar
sínar í nokkurri fræðilegri einangrun um þriggja áratuga skeið.
Nokkur venja hefur skapast fyrir að telja verk Elias til lykilrita þeirrar
hefðar sem oft er kennd við klassíska menningarsögu og rakin frá nítjándu öld
til miðrar tuttugustu aldar. Þannig má rekast á umfjöllun um verk hans í
nýlegum yfirlitsritum um menningarsagnfræði, þar sem þau eru felld í flokk
með verkum karlhöfunda á borð við Jacob Burckhardt, Karl Lamprecht,
Johan Huizinga, Ernst Cassirer, Arnold J. Toynbee, Max Weber, Aby Warburg
1 Ute Daniel, Kompendium Kulturgeschichte. Theorien, Praxis, Schlüsselwörter, Frank-
furt am Main: Suhrkamp, 2006, bls. 255.
2 Kaflinn heitir á frummálinu „Über Wandlungen der Angriffslust“ og við þýðingu
textans hefur verið stuðst við útgáfu hans í Norbert Elias, Über den Prozeß der
Zivilisation. Soziogenetische und psychogenetische Untersuchungen, 1. bindi: Wandlungen
des Verhaltens in den weltlichen Oberschichten des Abendlandes, Frankfurt am Main:
Suhrkamp, 1997, bls. 356–376.
Ritið 1/2012, bls. 161–181