Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 162
162
og Erwin Panofsky, er sögð tilheyra mikilvægu mótunartímabili menningar-
sagnfræðinnar fyrir upphaf þeirra viðamiklu rannsókna sem spruttu upp á
eftirstríðsárunum.3 Slíkum tilraunum til hefðarsköpunar ber að taka með
nokkrum fyrirvara. Upptalningin sýnir að samsetning þeirrar hefðar sem
kennd er við klassíska menningarsögu er nokkuð handahófskennd og þar ægir
saman verkum fræðimanna sem skilgreindu verk sín sem rit á sviði menningar-
sögu og verkum heimspekinga, félagsfræðinga, sagnfræðinga og listfræðinga
sem kenndu rannsóknir sínar við aðrar hefðir og strauma, þótt vissulega megi
sjá í þeim ákveðinn skyldleika við svið menningarsagnfræði. Elias fellur í flokk
hinna síðarnefndu og því er engan veginn sjálfgefið að kenna verk hans við
menningarsögu, heldur byggir slíkt mat á tiltekinni skilgreiningu á þeirri hefð.
Þegar þýski fræðimaðurinn Achim Landwehr fullyrðir að þótt „Elias hafi ekki
verið menningarsagnfræðingur að nafninu til verði rannsóknaraðferð hans
best lýst sem menningarsögu“, þá er vert að staldra nánar við þann skilning á
hefð menningarsagnfræðinnar sem hér liggur til grundvallar.4 Eins og kemur
fram í orðum Landwehrs, liggja menningarsöguleg einkenni rita Elias ekki
síst í aðferðinni sem hann beitir.
Ástæður þess að lítið fór fyrir viðbrögðum við riti Elias þegar það kom út
árið 1939 felast að hluta til í sögulegum aðstæðum þessa tíma, þegar önnur
viðfangsefni en saga borðsiða og siðmenntunar á Vesturlöndum kölluðu á
athygli fræðimanna. önnur meginástæða er þó aðferðafræðin sem beitt var í
verkinu og var á skjön við ríkjandi áherslur á sérfræðiþekkingu og afmörkun
fræðasviða á þessum tíma. Endurútgáfa ritsins árið 1969 rataði aftur á móti
inn í annað samhengi og það öðlaðist gildi sem lykilrit fyrir nýja þverfaglega
strauma í sögulegum rannsóknum, jafnt innan frönsku hugarfarssögunnar,
nýju menningarsögunnar í hinum enskumælandi fræðaheimi, sögulegrar orð-
ræðugreiningar og rannsókna á hversdagslífinu. Verk Elias er sérstæð blanda
sagnfræðilegrar rannsóknar, félagsfræðilegrar greiningar og sálgreiningar, þar
sem höfundurinn skeytir saman að því er virðist ósamrýmanlegum hefðum.
Niðurstaðan er breið lýsing á sögu hversdagslífsins og hvatalífsins, sem er
römmuð inn af félagsfræðilegri kenningu. Elias rekur ferli siðmenningarinnar
með hliðsjón af umbreytingu hversdagslegra lífshátta og sýnir hvernig það
leiðir frá dýrslegum lifnaðarháttum til ytri stjórnunar og loks sjálfsögunar. Að
þessu leyti má greina í siðmenningarkenningu hans forvitnilegan samhljóm
við greiningu Michels Foucault á sögu ögunar og refsinga nokkrum áratugum
3 Sjá m.a. Peter Burke, What Is Cultural History?, Cambridge: Polity, 2004, bls. 6–19;
Achim Landwehr, Kulturgeschichte, Stuttgart: Eugen Ulmer, 2009, bls. 18–36.
4 Landwehr, sama rit, bls. 35.
NoRBeRt eliAS