Skírnir - 01.01.1971, Page 26
24
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
hana til að drýgja hór með Birni Breiðvíkingakappa. Það er freist-
andi að líta svo á að Fróðárundur beri að skilja sem refsingu sem
lögð sé á Þuríði fyrir óleyfilegt samband hennar og Björns Breið-
víkingakappa, sem hefur valdið deilum og óróa í samfélaginu og er
því bæði synd gegn guði og mönnum. Hin illu öfl sem losna úr
læðingi á Fróðá eru hliðstæða þeirra illu afla sem losnað geta úr
læðingi þegar maðurinn gefur syndugu eðli sínu lausan taum. Ver-
aldlegt og andlegt eðli þeirra brota sem um er að ræða kemur fram
í því að bæði þarf hið veraldlega vald að kveða upp dóma yfir
draugunum og prestar að syngja messu til að reka þá á flótta og
hreinsa húsin.
Það kann að þykja skjóta skökku við að halda fram svo kristilegri
og siðrænni túlkun á þessum þætti sögunnar eftir að lýsing Snorra
goða hefur verið skýrð og skilin svo veraldlegum skilningi sem raun
ber vitni. Það er þó síður en svo ástæða til að gera ráð fyrir því að
eitthvert ósamræmi sé milli kristilegs siðferðis í einkamálum, ekki
sízt kynferðismálum, og trúar á réttmæti og ágæti sterks höfðingja-
valds, þar með talinn réttur höfðingjans til að beita æði harkalegum
brögðum til að treysta veldi sitt. Sambúð kaþólsku kirkjunnar og
veraldlegs valds hefur oft verið snurðulaus og með ágætum.
Hugmyndin um hinn ríka höfðingja sem samkvæmt guðlegri for-
sjón fyllir sinn sess í þjóðfélaginu með því að halda þar uppi reglu,
refsa þjófum og ránsmönnum, setja lög um skipan veraldlegra mála
og dæma eftir þeim, birtist ágætavel í Óspaksþætti. Þátturinn er eins
og saminn til að sanna ágæti og réttmæti voldugs höfðingja sem
verndar smælingja og réttir hlut þeirra gagnvart óaldarseggjum sem
brj ótast undan skorðum samfélagsins.
Athugun á nokkrum þáttum Eyrbyggju hefur þannig leitt í Ijós
að sagan er borin uppi af hugmyndum um manninn og samfélagið
sem ríkjandi voru í Evrópu á miðöldum, en jafnframt verður að
vara við því að lesa söguna sem einhvers konar dæmisögu, heim-
spekilega eða þjóðfélagslega. I sögunni iðar mannlífið, marglitt, fjöl-
breytt og sjálfu sér sundurþykkt. Ef einhverjum skyldi hætta við að
leggja í sögtma of einfaldan skilning eftir lestur þessara lína, er
óbrigðulasta læknisráðið að lesa söguna sjálfa einu sinni enn.