Skírnir - 01.01.1971, Síða 57
SKÍRNIR
ÞJÓÐARFLUTNINGUR
55
En tvær athugasemdir ber hér að gera að dómi Carrs. Hin fyrri
er þessi: Það eru ekki slíkar staðreyndir, sem áhugi sagnfræðinga
beinist sérstaklega að. Óneitanlega skiptir sú vitneskja máli, að
orustan var háð 1066 en hvorki 1065 né 1067, og að hún var háð
við Hastings en ekki Eastbourne eða Brighton. Sama er að segja um
þá staðreynd, að Skaftáreldar hófust 1783 en hvorki 1782 né 1784,
og þeir voru í Lakagígum en ekki í Oskju eða Heklu. Staðreyndir
sem þessar verður sagnaritari að tilgreina réttilega, og ástæðulaust
er að bera sérstakt lof á hann fyrir það. Nákvæmni er skylda en
ekki dyggð hefur Carr eftir öðrum sagnfræðingi.
Hin síðari er þessi: í slíkum staðreyndum er ekkert fólgið, sem
veldur því sjálfkrafa, að nauðsynlegt er að hafa þær á hreinu.
Þetta hafa sagnfræðingar einungis ákveðið fyrirfram. Alþekkt er,
hversu vandalítið er m. a. í fréttaflutningi að hafa áhrif á skoðun
manna með því að draga fram þær staðreyndir, sem við eiga hverju
sinni. Stundum eru þau orð látin falla, að staðreyndirnar tali sjálf-
ar, en þetta er ekki rétt. Staðreyndir tala eingöngu, þegar sagnaritari
vekur athygli á þeim. Hann ákveður hvaða staðreyndir skuli settar
í sviðsljósið, í hvaða röð það skuli gert og í hvaða samhengi.
Eina ástæðan fyrir því, að menn láta sig einhverju skipta, að
orustan við Hastings varð árið 1066, er sú, að sagnfræðingar hafa
metið hana mikilsháttar sögulegan viðburð. Sagnfræðingar hafa
og ákveðið af eigin hvötum, að för Sesars yfir Rúbíkón-á sé sögu-
leg staðreynd, en för allra þeirra milljóna, sem síðar hafa farið
yfir ársprænu þessa, láta þeir sig engu varða. Sú trú, að til sé harð-
ur kjarni sögulegra staðreynda, hlutlægur og óháður túlkun sagn-
fræðings, er fráleit blekking, sem þó er mjög örðugt að útrýma.
Carr nefnir þrjú dæmi þessu til stuðnings. Hið fyrsta er, að um
Grikkland á 5. öld f. Kr. séu til ýmsar heimildir. En vitneskjan sem
þær veita sé þó harla takmörkuð, ekki endilega af því að ýmislegt
hafi glatazt af tilviljun, heldur af hinu, að sú mynd, sem við mönn-
um blasi nú, sé mótuð af tiltölulega mjög fámennum hópi Aþenu-
manna. Sitt af hverju sé vitað um það, hvernig Grikkland á 5. öld
kom borgara Aþenu fyrir sjónir, en nær ekkert um það, hvernig
það var í augum Spartverja, Korinþumanna eða Þebverja, að ekki
sé minnzt á Persa eða hina fjölmennu stétt þræla. Þetta hefur ekki
gerzt af tilviljun einni, heldur hafa menn vitandi og óafvitandi