Skírnir - 01.01.1971, Síða 85
SKÍRNIR
SAGNAVAL JÓNS ÁRNASONAR
83
því leyfi, sem þeir hljóta að finna í því, að verk þeirra er óbeinlín-
is kriticerað, og eru þá til með að segja, að maður fái ekkert af því,
sem þeir hafa áður fúsir látið af hendi, í þeirri von, að það mætti
halda sér óbreytt. Hér er vandsiglt milli skers og báru.“30 Varð það
úr, að Maurer tókst á hendur að breyta þessum sögum Hjálmars
og Gísla.31 Guðbrandi þótti þó varla nógu ógrunsamlega að unnið,
því að hann skrifaði Jóni 28. febrúar 1861 og sagði þá: „Þér verðið
að gæta þess, að M(aurer) er bundinn by honour (með drengskap-
arheiti) við Hinr. Buch. (fyrirtækið, sem gaf út Islenzkar þjóðsög-
ur og ævintýri), að ekkert sé prentað í safninu nema það sem stricto
sensu (í ströngum skilningi) er alþýðusögur, því Hinr. Buch. hefir
bona fide (í góðri trú) tekið að sér forlagið upp á hans orð, því
sjálfir skilja þeir ekki orð í íslenzku, svo þeir prenta hvað sem að
þeim er rétt.“32
Ef til vill finnst nútímamönnum undarlegt, að þeir Guðbrandur
og Maurer skuli ekki hafa gagnrýnt, að Jón jók ýmsar munnmæla-
sögur með rituðum heimildum. Einkum ber á þessu í viðburðasög-
um. Ef til vill getur verið, að þeir hafi talið nauðsynlegt að gefa
lesendunum, sem margir voru sagnfræðilega sinnaðir, einhverja
hugmynd um tímatal, en þá var engin íslandssaga til hliðsjónar.
Menn verða líka að hafa í huga, að víða eru ártölin sett innan sviga,
og Jón segir, hvaðan hann hefur fengið hvaðeina, svo að menn
geta vel greint á milli ritaðra heimilda og munnmæla.
Þó að lögð væri mikil áherzla á að varast bóksögur og áhrif
þeirra, var ýmislegt annað haft til hliðsjónar við sagnasöfnun og
endanlegt val í safnið. Hér kom margt til greina, en ekki eru beinar
heimildir um þetta ýkjafjölskúðugar, þó að reynt verði hér að
tína til það helzta, sem fundizt hefur um þetta. Safnarar Jóns voru
margir og úr öllum stéttum þj óðfélagsins og heimildarmenn þeirra
enn fleiri og sundurleitari. Þarna voru bæði lærðir menn og leikir,
allmargir prestar og drjúgvirkir bændur og húsfreyjur þeirra, vinnu-
fólk og ýmsir lausamenn, fólk á öllum aldri. Sá mælikvarði, sem
þetta fólk lagði á sögur, var því margvíslegur. Gera má þó ráð fyrir
því, að margir þeirra hafi verið sæmilega sammála um það að skrá
hvorki né segja ýmsar sögur um ættingja og vini, sem þeim voru
taldar til hnjóðs á einhvern hátt. Konrad Maurer víkur að þessum
vanda safnara í formálanum að bók sinni, Islandische Volkssagen