Skírnir - 01.01.1971, Side 116
114
BJÖRN K. ÞÓRÓLFSSON
SKIRNIR
fram og innfjarða. Þingmálafundir vildu líka sem mest nota inn-
lenda gufubáta. Ýmsir fundir taka fram, að þeir vilji ekkert fé veita
til strandferða nema því aðeins, að um þær verði bætt, og semja við
annað félag, ef ekki fáist aðgengileg kjör hjá danska félaginu. Ekki
verður séð af samþykktum þingmálafunda, að neinn þeirra hafi
verið svo fortakslaust á móti því félagi sem Þingvallafundurinn var.
Þingmálafundur Eyfirðinga tók það fram, að hann vildi eigi „binda
hendur Alþingis að neinu leyti í fjárlegum efnum í þessu efni, eða
hafna einu félagi eða mæla fram með öðru“.
Á þingmálafundum sýndi sig ekki mikill áhugi um það að fá
æðsta dómsvald flutt inn í landið. Undir kröfu Þingvallafundarins
í því máli tóku aðeins þingmálafundir Suður-Þingeyinga og Sunn-
mýlinga. Þeir fundir samþykktu í einu hljóði áskoranir til Alþingis
um afnám dómsvalds hæstaréttar í Danmörku í íslenzkum málum og
að æðsti dómstóll landsins væri í landinu sjálfu. Ekki er þess getið
að þetta mál kæmi til tals á fleiri þingmálafundum, nema að Grímur
Thomsen sagði á þingmálafundi Borgfirðinga í umræðu um stjórn-
arskrármálið, að hann gæti eigi greitt atkvæði með „afnámi hæsta-
réttar“.
Um landsskóla eða lagaskólamálið virðist ekki hafa ríkt almenn-
ur áhugi meðal kjósenda. Því fylgja aðeins þingmálafundir Snæfell-
inga, Eyfirðinga, Suður-Þingeyinga og Rangæinga. Snæfellingar og
Rangæingar fóru fram á stofnun lagaskóla. Eyfirðingar gerðu álykt-
un Þingvallafundarins orðrétta að tillögu sinni til Alþingis. Mestan
stórhug sýndu Suður-Þingeyingar. Þingmálafundur þeirra skoraði
á Alþingi að semja og samþykkja lög um stofnun háskóla í Reykja-
vík. Vestmannaeyingar voru á móti málinu eins og á stóð. Þingmála-
fundur þeirra „var eindregið á þeirri skoðun,“ segir í fundarskýrsl-
unni, „að fresta skyldi stofnun landsskóla eða lagaskóla að þessu
sinni, þar sem fjárhagur landssjóðs væri svo bágur og önnur enn
nauðsynlegri framfarafyrirtæki lægju fyrir“. Ekki sést, að þetta mál
hafi komið til tals á fleiri þingmálafundum en nú var getið.
Á þingmálafundum, sem haldnir voru fyrir Alþingi 1889, voru
tollmál mest rædd allra þeirra mála, sem Þingvallafundurinn árinu
áður hafði fjallað um. Tollmálin voru víða fyrst á dagskrá þing-
málafunda.