Skírnir - 01.01.1971, Page 121
SKÍRNIR
ÞINGVALLAFUNDUR 1888
119
tolls, „að lagður sé tollur á allan aðfluttan drykk, sem hefur eins
stigs kraft og niður úr nema óblandað vatn, 10 aurar á hvern pott“.
Aðrir þingmálafundir greina ekki, hve háan þeir vilji tollinn, nema
hvað Vatneyrarfundur Barðstrendinga vildi „tolla öl, limonade,
sodavatn og alla aðra óáfenga drykki að upphæð í líkingu við verð-
hæð þeirra í samanburði við áfenga drykki“.
Tollur á óáfengum drykkjum virðist ekki hafa komið til tals á
þingmálafundum Skagfirðinga, Eyfirðinga, Suður-Þingeyinga,
Norðmýlinga, Vestmannaeyinga né Rangæinga. En á þingmálafund-
um, þar sem á annað borð var um hann rætt, var hann samþykkt-
ur.
Flestir þingmálafundir lögðu til, að lögleiddur yrði tollur á
smjörlíki. Að vísu er í samþykktum sumra fundanna talað um inn-
flutt, aðflutt eða útlent smjör, en algengara í samþykktunum er
orðalagið „óekta“ eða „tilbúið“ smjör, og stundum er notað út-
lenda orðið margarine (oftast e-laust) annaðhvort eitt sér eða í
samsetningunni „margarin-smjör“. Ekki er vafi á því, að í raun og
veru er alls staðar átt við smjörlíki, enda mun innflutningur á kúa-
smjöri ekki hafa verið mikill.4 Þingmálafundir Borgfirðinga, Snæ-
fellinga, Dalamanna, Barðstrendinga, Strandamanna, Húnvetninga,
Skagfirðinga, Eyfirðinga, Norðmýlinga, Vestur-Skaftfellinga, Rang-
æinga og Árnesinga, þingmálafundir 12 kjördæma, samþykktu allir
tillögur um að tolla vöru þá, er hér um ræðir. Enn fremur voru
slíkar tillögur samþykktar á þingmálafundi Vestur-ísfirðinga að
Mýrum í Dýrafirði og einum af þingmálafundum Norður-Þingey-
inga. Ekki verður annað séð af heimildum en þessar tillögur hafi
verið samþykktar mótatkvæðalaust á öllum þeim fundum, sem nú
var getið. Þegar þingmálafundir gera tillögur um hæð hins fyrir-
hugaða tolls, er stungið upp á honum háum eftir því, sem þá gerð-
ist, og leynir sér ekki andúð á vörunni. Þingmálafundur Borgfirð-
inga stakk upp á 50 aura tolli af pundi, Dalamenn stungu upp á
20 aura tolli. í Vestur-Skaftafellssýslu samþykkti Flögufundurinn
„30 aura toll minnst“ og fundurinn í Loftsalahelli lagði til, að toll-
urinn yrði 40 aurar af pundi. Lengst gekk Broddanessfundur
Strandamanna. Hann skoraði á Alþingi „að stemma stigu fyrir að-
flutning á útlendu óekta smjöri, annaðhvort með háum tolli eða
algjörlegu aðflutningsbanni“. Hér er farið fram á banntoll, en