Skírnir - 01.01.1971, Síða 146
P. M. MITCHELL
íslenzkar bókmenntir erlendis
Nokkrar tölfrœðilegar athuganir
Ekki ERU nema hundrað ár síðan tekið var að gefa íslenzkum
bókmenntum seinni tíma gaum erlendis. Islenzkur skáldskapur
18du og öndverðrar 19du aldar vakti enga eftirtekt út í frá. En
eftir miðja 19du öld náðu höfundar eins og Jónas Hallgrímsson,
Grímur Thomsen, Benedikt Sveinbj arnarson Gröndal, Gísli Brynj-
ólfsson og Steingrímur Thorsteinsson áheyrn lesenda í öðrum lönd-
um sem ekki kunnu íslenzku.
Eftir að tekið var að birta íslenzkar bókmenntir á öðrum málum
- hvort heldur var í þýðingu eða frumsamin verk íslenzkra höfunda
á önnur mál - hefur áhugi á þeim erlendis farið vaxandi. Arin
1860-69 var svo sem tylft kvæða eftir íslenzka höfunda prentuð
á þremur erlendum tungumálum, dönsku, þýzku og latínu. 1960-69
birtust á hinn bóginn rúmlega 500 þýðingar íslenzkra kvæða á
að minnsta kosti 23 erlend tungumál. Sjö íslenzkar smásögur voru
þýddar á tvö mál, dönsku og þýzku, 1860-69, en rúmlega 140 sögur
á 18 tungumál 1960-69. Tölur um þýðingar skáldsagna tala þó enn
skýrara máli. Fyrir árið 1900 birtust aðeins fimm þýðingar ís-
lenzkra skáldsagna á önnur mál - tvær á dönsku, tvær á ensku,
ein á þýzku, en árin 1960-69 birtust á 28 málum 111 þýðingar ís-
lenzkra skáldsagna í heilu lagi eða hluta þeirra. Áhugi á íslenzkum
bókmenntum var þá ekki lengur bundinn við tiltölulega þröngt
menningarsvæði, Norðurlönd, Bretland og Þýzkaland eins og fyrir
1914, en kom 1970 fram í velflestum Evrópulöndum. Og fyrir
kom að íslenzk rit voru þýdd á enn fjarlægari tungumál: kínversku,
japönsku, tyrknesku, bengali, oriya. Allt talið hafa íslenzk kvæði
birzt á 30 tungumálum (ef norskt ríkismál og nýnorska eru talin
hvort í sínu lagi) en smásögur og skáldsögur á 38 málum.