Skírnir - 01.01.1971, Síða 164
BRÉF TIL SKÍRNIS
Um siðferði og skyldur fræðimanna
í Skírni 1970 birtist á bls. 217-221 ritdómur eftir próf. Svein Skorra Hös-
kuldsson um ritgerð eftir mig: Guðmundur Kamban. Æskuverk og ádeilur.
Studia Islandica 29, Reykjavík 1970. I ummælum hans um heimildakönnun
mína varðandi skáldsöguna Ragnar Finnsson og tengsl hennar við bókina My
life in prison eftir Donald Lowrie felst svo alvarleg aðdróttun um siðferðisbrot,
að ég get ekki látið kyrrt liggja. Bollaleggingar um siðferði og skyldur fræði-
manna og skort minn á hvorutveggja taka yfir þriðjung af rúmi ritdómsins, og
í von um, að ekki sé orðið of seint að rétta við „fræðimannlegt siðferði" mitt
í augum lesenda Skírnis ætla ég nú að gera tilraun til að svara til saka í jafn-
stuttu og gagnorðu máli.
Próf. Sveinn Skorri fullyrðir ekki, heldur notar það gamalkunna og áhrifa-
mikla stílbragð að gefa í skyn. Lætur hann að því liggja, að mér hafi - lík-
lega af bókavörðum Landsbókasafns - verið bent á bók Lowries sem heimild-
arrit Ragnars Finnssonar, en í ritgerðinni þegi ég yfir þeirri ábendingu og
láti sem ég hafi sjálf uppgötvað tengslin af „fundvísi á heimildir og með víð-
tækum lestri um kjörsvið". Rökin, sem liggja til þessarar ályktunar hans virð-
ast helzt þau, að alls staðar annars vitni ég „trúverðuglega" til heimilda! En
nú vill svo til, að einnig í þetta skipti vitnaði ég „trúverðuglega“ til heimilda,
þótt ég hafi raunar ekki verið leidd í allan sannleik eins og próf. Sveinn Skorri
né tilvitnun mín birzt á réttum stað. Því miður kemst ég ekki hjá því að
hlanda vinum mínum bókavörðum á Landsbókasafni í málið, en vona, að þeir
taki það ekki óstinnt upp, þar sem um jafnalvarlegt mál og siðferði mitt er
að tefla.
Bókin My life in prison eftir Donald Lowrie er til á Landsbókasafni, þar
sem ég vann mestan hluta ritgerðar minnar, og er skráð þar í spjaldskrá yfir
amerískar bókmenntir. Þessari spjaldskrá fletti ég og fékk lánaðar til lestrar
þær bækur, sem mér þóttu girnilegar til skilnings á Kamban í Ameríku, eink-
um voru það þjóðfélagsádeilur eftir kunna höfunda eins og Upton Sinclair og
Theodore Dreiser. Titillinn My life in prison og útgáfuárið 1912 stungu í
augu, og strax á fyrstu blaðsíðu bókarinnar blöstu við mér ævintýri Ragnars
Finnssonar. Bókamerki Gunnars Hansens var á þessu eintaki sem og á eintök-
um Landsbókasafnsins af bókum Osbornes, sem ég vissi, að Kamban hafði
einnig stuðzt við. Ég færði þetta í tal við tvo bókaverði Landsbókasafns, sem