Skírnir - 01.01.1971, Side 166
Ritdómar
HERMANN PALSSON:
TÓLFTA ÖLDIN
Þættir um menn og málefni
Prentsmiðja Jóns Helgasonar. Reykjavík 1970
Svo sem fram kemur í bókarheiti, fjallar höfundur um menn og málefni
12. aldar. Er þar vikið aíi margvíslegu efni, og er viðaminnst að fá hugmynd
um það af kaflafyrirsögnum, en þær eru: Skáldið á Víðimýri, Djákninn í
Odda, Konan á Breiðabólstað, Farmaður frá Bræðratungu, Fyrsta málfræði-
ritgerðin og upphaf íslenzkrar sagnaritunar, Ari fróði og forsaga íslendinga,
Stofnun Þingeyraklausturs, Um írsk atriði í Laxdæla sögu, Um konungaævi
og annála. Auk þess fylgir Viðbætir, Innlendir atburðir í íslenzkum annálum
á tólftu öld, og loks skrá um atriði í annálum og tilvitnanir.
Sumar þessara ritgerða hafa birzt áður í blöðum og tímaritum, og eru því
sumpart gamlir kunningjar. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur hefur ritað
formála að bók Hermanns og kemst hann m. a. svo að orði: „Höfundurinn,
Hermann Pálsson, er hugkvæmur og glöggskyggn rýnandi íslenzkrar miðalda-
sögu og lítill aðdáandi hefðbundinna skoðana. I litlu samfélagi er fátt, sem
hvetur til alvarlegra fræðiiðkana. Þær krefjast mikillar vinnu, þolgæði og
víðsýni, en laun heimsins eru oft vanþakklæti. Við slíkar aðstæður verða
fræðin stundum einhæf, tilþrifalítil og hugmyndasnauð; mönnum hættir
til að verða yfirborðslegir, „hálflærðir“ og hjakka í sama fari eða eta hver
eftir öðrum. Þannig hefur málum löngum verið háttað innan sumra greina
íslenzkra fræða; þær eiga sér tímabil stökkbreytinga, en milli þeirra liggja
misjafnlega langar og leiðar stundir hugmynda- og tilþrifaleysis." Undir
þetta má taka hjá Birni að vissu marki. Öllum er ljóst, að hugkvæmni er
einn mikilvægasti eðlisþáttur góðs vísindamanns, en hún verður að taka lögun
af þeim heimildum, sem úr er unnið og láta sig sennileik einhverju varða.
Lausbeizluð hugkvæmni er leikur, sem ekkert á skylt við fræði- eða vísinda-
rannsóknir, heldur skáldskap, og af þeim toga virðast mér sumar greinar Her-
manns, svo sem Djákninn í Odda og Farmaður frá Bræðratungu. Um rann-
sóknaraðferð sína segir Hermann á einum stað (bls. 44): „Þeir, sem leggja
hug á að lesa samfellda sögu úr sundurleitum slitrum annála og annarra heim-
ilda, verða oft að lúta að litlu og hirða hvern þann fróðleiksmola, sem fellur
til. Þegar heppnin er með, getur fræðimanninum stundum tekizt að raða
bitunum saman, svo að úr verður heilleg og skiljanleg mynd, en þó getur
enn svo brugðið við, að hann verður að geta sér til meira en góðu hófi gegnir