Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 10
280
ÞRÖSTUR HELGASON
SKÍRNIR
í þessari grein er ætlunin að skoða nánar þessi umskipti í bók-
mennta- og hugsunarsögu átjándu og nítjándu aldar með hliðsjón
af íslenskri skáldskaparfræði og -umræðu.2 Grafist verður fyrir
um rætur höfundarhugtaksins og reynt að sýna hvernig það verð-
ur stig af stigi að þeirri hugmynd sem við þekkjum nú á tímum.
Hér er átt við þætti eins og eignarrétt höfundar á texta sínum,
sköpunargáfuna og kröfuna um frumleika.
Stuðst verður við sögusýn franska heimspekingsins Michels
Foucault (1926-1984) sem í riti sínu, Orð og hlutir, hefur rakið
hugsunarsögu Vesturlanda frá lokum miðalda fram á þessa öld.3
Tímabilinu skiptir hann í fjögur skeið eða hugsunarkerfi,
endurreisn (-1650), klassík (1650-1800), nútíma (1800-1950) og
framtíð (1950-). Foucault segir að á þessu tímabili hafi orðið þró-
un á því hvernig maðurinn skynjaði og skildi heiminn og sjálfan
sig í honum. Framan af var hlutverk sjálfsins lítið í þessu tilliti en
það efldist smátt og smátt uns það varð að miðpunkti heimsins í
nútímanum. Telur Foucault að þá hafi maðurinn í vissum skiln-
ingi orðið til. Svo virðist sem tilurð höfundarins sé nátengd
2 Greinin er byggð á M.A.-ritgerð minni í íslenskum bókmenntum við Háskóla
íslands. Þetta er ekki tæmandi rannsókn á tilurðarsögu höfundarins á íslandi
heldur aðeins grunnur að frekari athugunum. Hér er til dæmis lítill gaumur
gefinn að óprentuðum skrifum um skáldskaparfræði á átjándu og nítjándu
öld. Það væri svo efni í aðra grein að skoða eflingu sjálfsverunnar í skáldskap
þessa tímabils.
3 Franskur titill bókarinnar er Les Mots et les choses, une archéologie des sci-
ences humaines, 1966. Hér verður stuðst við og vitnað í enska þýðingu á þessu
verki sem heitir The Order of Things. An Archaeology of the Human Sciences
(Tavistock Publications Limited, London 1970). Bók Huberts L. Dreyfus og
Pauls Rabinow, Michel Foucault: Beyond Structuralism and Hermeneutics
(Harvester Wheatsheaf, New York 1982), er gott yfirlitsrit um heimspeki
Foucaults. The Passion of Michel Foucault eftir James Miller (Simon &
Schuster, New York 1993) og The Lives of Michel Foucault eftir David Macey
(Vintage, London 1993) gefa ennfremur gott yfirlit yfir ævi og verk Foucaults.
Á íslensku hefur lítið verið ritað um Foucault, en þó skal bent á tvær stuttar
greinar sem gætu varpað nokkru ljósi á þennan merka hugsuð: „Orð og hlutir.
Um hugsunarkerfi Michels Foucaults" eftir Matthías Viðar Sæmundsson í
greinasafninu Myndir á sandi. Greinar um bókmenntir og menningarástand
(Bókmenntafræðistofnun Háskóla Islands, Reykjavík 1991, s. 138-45) og „í
völundarhúsi Michels Foucaults" eftir Þröst Helgason í Lesbók Morgunblaös-
ins (3. júní 1995).