Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 216
486
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
um. Eðli þessara tjáningarforma er með þeim hætti, að einhlít
merking, sem allir geti verið sammála um, er hvorki möguleg né
heldur æskileg. Afleiðing eða árangur hefðbundinna tákna er
upplýsing, en afleiðing listræns táknmáls innsæi.
Sum svið mannlegrar reynslu verða ekki túlkuð beinum orð-
um. Eina leiðin til að kanna og skilja svið huglægra viðbragða er
að „innlima" form þeirra og mynstur í form og mynstur „áþreif-
anlegra" fyrirbæra. Svo dæmi sé tekið, þá hafa hugtökin „blað“,
„bakki" og „egg“ afmarkaða merkingu, og staðhæfingin „blað
skilur bakka og egg“ er frekar hversdagsleg, en þegar hún gengur
í samband við það sem á undan er komið, „Háa skilur hnetti him-
ingeimur", og það sem á eftir fer, „en anda sem unnast fær aldregi
eilífð að skilið", þá verður úr því mynstur sem vekur máttug við-
brögð, þó einstakar ljóðlínur séu kannski áhrifalitlar.
Skáldskapur er hvorki tungumál né tjáning geðshræringa eða
tilfinninga, enda illmögulegt að lýsa svo flóknum ferlum, heldur
getur hann vakið grun eða skynjun á mannlegum kenndum, afþví
listin er „flókin reynsla sem hreyfist og breytist", einsog Dewey
orðar það. Skáldskapur getur gefið til kynna stemningar eða sál-
arástand, en það sem gefið er til kynna verður að ganga inní list-
ræna heild verksins. Listaverk er gott, hvar, hvernig og hvenær
sem það er samið, ef fagurfræðilegar eigindir þess ná að fanga til-
finningaskyn njótandans.
Eg hef gerst svo margorður um eðli og upplifun listrænnar
sköpunar vegna þess að hugmyndir manna um tilgang og mikil-
vægi lista í mannlegu samfélagi virðast einatt vera talsvert á reiki.
EJm það er að minni hyggju engum blöðum að fletta, að þær af-
urðir, sem frá skapandi listamönnum koma á hverjum tíma, eru
tjáning þess dýpsta, veigamesta og varanlegasta sem í þjóðardjúp-
inu hrærist og varða jafnframt veginn til aukins þroska og sjálfs-
þekkingar hvers einstaklings. Blindur er bóklaus maður, segir
gamalt máltæki og felur í sér víðtækari sannleik en margur hygg-
ur, þó það væri miðað við samfélag sem ekki hafði af umtalsverðri
leiklist, tónlist eða myndlist að státa. Samfélag sem vanrækir eða
vanmetur listsköpun er af ráðnum hug eða hreinni grunnhyggni
að koma sér í svipaða aðstöðu og hrörnandi maður sem neitar að
leita sér læknis eða taka inn lyf sem bætt gætu heilsufar hans.