Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 139
SKÍRNIR
HVAÐ ER SANNLEIKUR?
409
Hólmverjana. - En hafi Hólmverjar aldrei verið til, hvaðan var þá
hugmyndin komin?
Og hvað skyldi vera um mannjöfnuð þeirra Sturlu og Harðar
Grímkelssonar? Það liggur að vísu í augum uppi að báðir voru
„tragískar hetjur“, búnir óvenjulegu atgjörfi, en hlutu þó hrapar-
leg örlög, og að nokkru leyti fyrir eigin tilverknað. Samt er eg
ekkert viss um að þessir tveir menn séu nokkuð sérstaklega sam-
stæðir. íslensk fornrit segja frá svo mörgum glæsilegum hæfi-
leikamönnum, sem urðu að þola „meinleg örlög“. Og þó að báðir
féllu að lokum fyrir ofurefli, var, eins og Guðrún Ása víkur líka
að, ákaflega breitt bil á milli höfðingjans, sem barðist fyrir völd-
um yfir öllu Islandi, og hins friðlausa útlaga.
Engum, sem les Harðar sögu, dylst að frásögnin er með all-
miklum ýkjubrag, fer jafnvel inn á svið furðusagna. Samt sem áður
hef eg aldrei efast um að Hörður hafi raunverulega verið til, og að
útlegðin í Hólminum hafi með einhverjum hætti átt sér stað. Það
getur verið að sögnin um útlagana sé ótrúleg, en ef vel er að gætt,
skil eg ekki í öðru en að ýmislegt finnist í íslandssögunni, og það
frá ýmsum tímum, um það bil eins ótrúlegt, og þó stutt nægum
heimildum. Nefni eg þar til, næstum af handahófi, Spánverjavígin
1615. Einnig má vel vera, og er það raunar mjög líklegt, að sögnin
sé afar mikið ýkt og að aldrei hafi líkt því svona margir menn hafst
við í Hólminum. En Sturla Þórðarson minnist á helstu atriði sög-
unnar í Landnámu sinni, og annar fræðimaður, - líklega Styrmir
fróði, - skráði Harðar sögu sem byggð er á þeim sömu atriðum.
En hvor þeirra skyldi þá fremur hafa „spunnið upp“ atburðaþráð-
inn, Sturla eða höfundur sögunnar, það er ekki gott að vita.
Eða hin mörgu örnefni, sem eru í Harðar sögu. Miklum mun
finnst mér líklegra að þau séu yfirleitt ófölsuð og mörg hver
kennd við persónur og atburði, sem þarna gerðust, og að mínu
áliti verið sögunni nokkuð til styrktar. Mér finnst þetta miklu
sennilegra en að einhver sagnaritari hafi gengið á röð örnefna í
umhverfinu og umturnað nöfnum þeirra til að kenna þau við
menn og atvik í sögu, sem hann var að semja. Hefðu Borgfirðing-
ar og aðrir, sem hlut áttu að máli, mátt verða við að taka á móti
og samþýðast öllum þeim breytingum, ef þær hefðu raunverulega
farið fram?