Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 235
SKÍRNIR
SJÓARINN SEM ER EKKI TIL
505
„íslenska sjómanninum“, ímynd sem falli nálægt þeim myndum sem við
sjáum í þessum skáldverkum.
Það má lengi velta fyrir sér ástæðum þess að raunsæið er svo fyrir-
ferðarmikið, að vísu blandið rómantík á tíðum, í þeim fáu sjóarasögum
sem við eigum. Er það að kröfu lesandans eða efnisins? Hvors tveggja?
Ástráður Eysteinsson heldur því fram í grein sinni „Baráttan um raunsæ-
ið“ að í vissum skilningi megi segja að „ýmsir textar skrifi hinn nýja
texta „í gegnum“ höfundinn [...] og að ýmsir textar [...] lesi hann „í
gegnum“ viðtakandann."15 Af því má ráða að lesandinn móti textann
ekki síður en höfundurinn og því hafi hinar hefðbundnu væntingar les-
andans til sjóarabókmennta áhrif á bókmenntasköpunina. I þessu við-
fangi er einnig vert að íhuga þau orð Svövu Jakobsdóttur að raunsæi
fleyti „nánast viðstöðulaust áfram hefðbundinni hugsun“.16 Það eru
einmitt þessar hefðbundnu hugsanir sem ganga aftur, meira og minna, í
öllum þeim bókum sem hér hafa verið til umsagnar. Hver er ástæðan
fyrir því að þær formtilraunir sem gerðar hafa verið í íslenskum bók-
menntum ná ekki til sjóarabókmennta nema í litlum mæli? Hvers vegna
hefur enginn dirfst að nota fantasíuna til að brjóta niður þessar tuggur úr
reynsluheimi karla, rétt eins og Svava gerði fyrir reynsluheim kvenna?
Er borgin eini byggingarstaðurinn fyrir slíka tilraunastarfsemi sem og
flesta aðra starfsemi í okkar þjóðfélagi? Stafar þessi aflatregða þá af þeirri
einföldu ástæðu að flestir íslenskir rithöfundar lifa óhultir á malbikinu
án þess að hafa migið í saltan sjó? Ef til vill vantar okkur fleiri rithöfunda
sem hafa það mikla reynslu af sjónum að hann er hættur að ofgera skiln-
ingarvitum þeirra.
Allt að einu bíður íslenskra höfunda það verkefni að skrifa snilldar-
verkið um þann atvinnuveg sem hefur, ásamt landbúnaði, gagnsýrt mál
og menningu landsins með beinum eða óbeinum hætti frá aldaöðli. Við
róum hér á mið ævagamalla orðtaka í annarri hverri setningu, en veigrum
okkur af einhverjum ástæðum við að nota þau í sínu eiginlega umdæmi
og láta tímana tvenna toga þau og teygja. Þótt sögusviðið skipti ekki öllu
máli í bókmenntum, og kannski allra síst í snilldarverki - segjum þar sem
hvundagsíslendingurinn hittir á gjöfula æð í sjálfum sér - er þarna komin
hrópandi þversögn í menningarlífi okkar, meira en það, þarna gín hið ís-
lenska tóm og það þarf að fylla ef við eigum að átta okkur betur á því
hver við erum. Hvar er skuttogarinn í íslenskum bókmenntum? Og hvar
er frystitogarinn? gæti maður spurt í leit að íslenskum samtíma.
Við vitum ekki að hve miklu leyti reynslu verður breytt í texta eða
hvað gerist þegar það er reynt, en margir rithöfundar og fræðimenn hafa
lýst þeirri skoðun að hægt sé að komast nær sannleikanum - hvernig sem
15 „Baráttan um raunsæiS", Tímarit Máls og menningar 4, 1984, bls. 428.
16 „Reynsla og raunveruleiki", bls. 227.