Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 224
494
RÚNAR HELGI VIGNISSON
SKÍRNIR
ferðalagi inn í innstu myrkur mannssálarinnar. í sögu Baldurs eru þeir
Eggert og Þórður gamli þögli miðskips. Þeir félagar tortryggja hvor ann-
an og þykjast báðir sjá eitt og annað misjafnt í fari hins. Gefið er í skyn
að Eggert sé falsmaður, jafnvel tugthúslimur, og kunni ekki raunverulega
til verka, heldur hafi lært af bók eða námskeiði, enda lendir hann í stöð-
ugum vandræðum með pokahnútinn og má þola háðung af Þórði fyrir
vikið. Uppgjör fer fram á heimleiðinni þegar Þórður liggur í saur sínum
eftir langvarandi drykkju og Eggert, sem er undir áhrifum annars konar
vímuefna, lætur hann fá til tevatnsins af dýrslegri heift. Báðir fara síðan
útbyrðis, Þórður án þess að nokkur verði þess var, en Eggert tekur út
þegar brot ríður yfir. I þessum átökum eiga væntanlega að mætast tím-
arnir tvennir, ellegar ólík viðhorf til sjómennskunnar. Veruleg dýpt næst
þó ekki í frásögnina, heldur leysist hún upp í hálfgerðan farsa þar sem
stöðugt er reynt að yfirkeyra lesandann með svæsnari og svæsnari lýs-
ingum.
Frásagnaraðferðin veldur nokkru um það að sagan verður ekki djúp-
skreiðari en raun ber vitni. „Kunningi" er að vísu ágætur sögumaður,
(full)vel máli farinn og kjarnyrtur, en hinir örstuttu innskotskaflar skrá-
setjarans, þar sem lýst er málhvíldum sögumanns og reykingum, orka
tvímælis. Þeir bæta engu öðru við verkið en áminningu um að hér er ver-
ið að segja landkröbbum sögu af löngu liðnum túr á togara. I innskotun-
um fer ekki heldur fram nein umræða um söguna og vart hægt að tala
um að þau auki eftirvæntingu lesandans, eins og málhvíldir gera gjarnan.
Þessi bygging býður eigi að síður upp á heillandi möguleika. Það hefði
til dæmis legið beint við að vinna með hið hefðbundna fyrirbæri „saga af
sjónum", enda virðist frásögn kunningjans spretta af hefðbundnu skipa-
málverki á veggnum. Þess í stað sitja hlustendurnir þrír, sem við vitum
svo til ekkert um, eins og dolfallnir undir klisjum sögunnar og þegar
henni er lokið segir enginn neitt. Innskotsköflunum fylgir krafa um tal-
málsstíl á frásögninni og því fer ekki framhjá lesandanum að honum er
ekki alltaf fyrir að fara.
Skáldsagan Múkkinn eftir Eyvind P. Eiríksson er allvel heppnuð til-
raun til að fást við veruleik sjómannsins með því að bræða saman raun-
sæi og módernisma. Sagan hefur hefðbundinn söguþráð, en þó ber svo
við að söguhetjan er ekki nýliði: Magnús er reyndur sjómaður sem hefur
munstrað sig á Suðureyna, gamlan jálk á síðasta snúningi. Hann kynnist
mannskapnum, klámkjöftum og ælandi nýliðum, kemst í hann krappan
(virðist reyndar ekki lifa af að lokum), þvælist svo með áhöfninni í
róstusömum landlegum og hittir kvenmann. Þessi hefðbundni söguþráð-
ur er brotinn upp á tvennan hátt; annars vegar með ljóðrænum lýsingum
sem tengjast múkkanum, hins vegar með þremur stuttum köflum um
sjórekið lík. Síðarnefndu innskotskaflarnir tengjast ekki meginsögu-
þræðinum beint, en þá má setja í samband við frásögn af sjómanni sem