Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 17
SKÍRNIR
TILURÐ HÖFUNDARINS
287
Vissulega voru til eldri skáldatöl, bæði um hirðskáldin gömlu,
þar sem skáldin eru tengd einstökum þjóðhöfðingjum, og skálda-
töl (eða nafnaþulur) frá síðari öldum í rímnamansöngvum.16 Það
voru hins vegar nýmæli á átjándu öld að menn beindu augum sér-
staklega að skáldunum sem slíkum, uppruna þeirra, menntun, fé-
lagslegri stöðu og öðru þvílíku.17 Áður hafði textinn verið aðal-
atriði en skáldið aukaatriði enda var það umfram allt túlkandi
eldri texta, hvort heldur var um að ræða guðsorð eða fornar
sögur og kvæði.
Skáldatal Páls Vídalíns var ekki prentað fyrr en rúmlega
tveimur og hálfri öld eftir lát hans og þá með viðauka séra Þor-
steins Péturssonar (1710-1785). Árið 1777 var hins vegar prentuð
í Kaupmannahöfn bókmenntasaga sem rituð var af Hálfdani Ein-
arssyni skólameistara á Hólum (1732-1785), Sciagraphia kistoriœ
literanæ Islandiœ. Er hún af svipuðum toga og saga Páls - rekur
ættir og ævi, menntun og verk skálda - nema hvað Hálfdan
flokkar höfundana eftir viðfangsefnum skrifa þeirra þar sem Páll
styðst aftur á móti við stafrófsröðina.18
Þegar hér er komið sögu hefur höfundurinn styrkt stöðu sína
nokkuð sem sjálfstæð vera, sem einstaklingur. Við sjáum til dæm-
is merki þessa í kunnum formála Eggerts Ólafssonar (1726-1768)
að Kvœðum sem hann ritaði árið 1768. Orðræðan í skáldskap
Eggerts - og upplýsingarmanna yfirleitt - var af hugmyndafræði-
16 Sjá Jakob Benediktsson, „Skáldatal“, Hugtök og heiti í bókmenntafrœði (Bók-
menntafræðistofnun Háskóla Islands, Mál og menning, Reykjavík 1983, s.
241).
17 1 Evrópu beindist athygli manna heldur ekki að persónu skáldsins og einka-
högum fyrr en á átjándu öld (sbr. Siegfried Jiittner, „The Status of the Writ-
er“, Seventh International Congress on the Enlightenment: introductory
papers, The Voltaire Foundation, At the Taylor Institution, Oxford 1987, s.
174-75).
18 Báðar þessar flokkunaraðferðir eru fremur illa til þess fallnar að veita sögulegt
yfirlit og því er réttara að kalla þessi rit skáldatöl en bókmenntasögur. Þess má
geta að Sveinbjörn Egilsson (1791-1852) ritaði líkast til fyrstu eiginlegu bók-
menntasöguna hér á landi árið 1847 þar sem fjallað er um einstaka höfunda,
teviferil þeirra og verk en þeim er skipað niður eftir bókmenntagreinum og
tímabilum. Bókmenntasaga Sveinbjarnar var gefin út í fyrsta skipti í þriðja
hefti tímaritsins Skáldskaparmál (1994, s. 177-215) ásamt grein um bók-
menntasöguna eftir Gunnar Harðarson (s. 169-76).