Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 221
SKÍRNIR
SJÓARINN SEM ER EKKI TIL
491
Ég tók sérstaklega eftir Stefáni Haralds og konunni hans, henni
Olgu. Hún var ekki nema fjórum árum eldri en ég, tuttugu og
þriggja, og búin að vera gift Stefáni í þrjú ár. Þau vóru bæði dálítið
full, og Olga hálfslagaði fram bryggjuna. Það var sagt að hún héldi
fram hjá honum, þegar hann væri á sjónum. (13)
Engu er líkara en Stefáni sé ætlað að vera táknmynd þess lífs sem biði
sögumanns ef hann veldi sér sjómennskuna að ævistarfi: togstreita milli
konu og skips.2 „Sjórinn á ykkur alla,“ segir Olga grátandi undir lok
bókarinnar (150), en hún hefur lagt hart að manni sínum að koma í land.
„Ég vil ekki vera Olga þín án þín“, tjáir hún Stefáni (122). Þrátt fyrir að
Olga sé afar fönguleg veitist Stefáni örðugt að gera upp á milli þessara
„ástkvenna" og í bókarlok sjáum við hann koma sauðdrukkinn að borði
eftir harða glímu við valkostina. Að mínu mati rís bókin hæst þar sem
ástarsamband Stefáns og Olgu er. I viðskiptum þeirra líta djúpstæðar og
áríðandi tilfinningar heimsins ljós. Þar kristallast hið sérstaka hlutskipti
sjómannsins og sjómannskonunnar og þeir samskiptaerfiðleikar sem fólk
í þessari stöðu býr við, en þeir tákngerast meðal annars í því hve illa
Olgu gengur að verða barnshafandi. Tengslaleysi heimanna tveggja sést
einnig vel þegar Olga situr á milli sjómannanna og horfir utangátta í
heim fram. Til að gefa þessu þema algildari skírskotun leggur höfundur
til sögu af Ananíasi bátsmanni, sem átti við sama vanda að glíma, en leys-
ir höfuð sitt með því að taka trú, rétt eins og þar sé kominn tengiliður
milli sjós og lands. Morguninn eftir að sögumaður hefur kynnst vænlegri
stúlku, hjúkrunarnema, lendir hann einmitt sjálfur inni í kirkju og heyrir
predikun um samkenndina, en finnst hann boðflenna vegna þess hve
skammt er um liðið frá því hann var „að drekka brennivín" (159).
Hlutverk Hannesar í sögunni er óljósara, en hlutskipti hans verður
þó áminning um mátt sjávarins - hann fótbrotnar illa þegar brot ríður
nánast fyrirvaralaust yfir skipið. Sjúkrahúsvist hans verður líka snerti-
flötur við hjúkrunarnemann áðurnefnda, en stúlkuna þá kveður sögu-
maður í bókarlok eftir heimsókn til Hannesar. Þáttur Hannesar er samt
það lítill að hann verðskuldar vart þann heiður að fá um sig kafla. Auk
þess er kaflinn fremur máttlaus - Hannes stendur við stýrið og veltir
vöngum yfir hversdagslegum hlutum sem ekki hafa nein áhrif á gang
sögunnar. Mann grunar að kaflanum sé öðru fremur ætlað að auka áhrif
þess sem síðar hendir Hannes með því að færa okkur efnivið í samlíðan.
Sá efniviður verður eigi að síður fullrýr til að Hannes skipti okkur
verulegu máli.
2 Skip eru gjarnan kvenkennd, enda bera þau oft kvenmannsnöfn. Þetta sjáum
við t.d. í Múkkanum þar sem skipið heitir „Suðurey og var af þeirri gerð, sem
var blaut í göngunum, bleytti sig mikið, eins og strákarnir sögðu, og ekki und-
arlegt með alla þessa karlmenn á sér“ (20).