Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 206
476
PLÓTÍNOS
SKÍRNIR
9. Hvað blasir nú við þessari innri sjón? Meðan hún er nývak-
in getur hún alls ekki horft á ljómann.35 Sálina verður að venja og
láta hana fyrst horfa á fagurt líferni. Þá fögur verk - ekki af því
tagi sem listirnar framleiða, heldur þeir menn sem þekktir eru að
gæsku. Líttu þvínæst á sál þeirra sem vinna hin fögru verk.36
Hvernig gætirðu séð þessháttar fegurð sem góð sál hefur til að
bera? Hverfðu inn í sjálfan þig og sjáðu. Og sjáir þú sjálfan þig
ekki fagran, farðu þá að eins og myndhöggvari sem ætlar að gera
fagra höggmynd: hann nemur burt hér, slípar þar, sléttir þennan
hluta, skerpir hinn uns hann hefur fengið fram fagurt andlit á
styttuna. Eins skalt þú nema brott það sem er ofaukið, slétta hið
ójafna og lýsa hið myrka svo það verði bjart, og hættu ekki „að
vinna að höggmyndinni þinni“37 fyrr en guðlegur ljómi dygðar-
innar skín af þér, fyrr en þú sérð „hófstillingu í sitt helga sæti
setta".38 Sértu orðinn svona andlit, sérð það, og lyndir við sjálfan
þig í hreinleikanum, og ekkert aftrar því að þú verðir eitt með
þessum hætti, né blandast það öðru hið innra heldur ertu allur þú
sjálfur, einskært hreint ljós; það er ekki mælt í stærð né gert
minna með mörkuðu lagi, né aftur hafið til stærðar með ómæli,
heldur er það í hvívetna ómælanlegt þar sem það er hverju máli
meira og öllu magni ofar; er þú sérð sjálfan þig svona orðinn, ertu
þegar orðinn sjón og treystir á sjálfan þig; þú hefur þegar klifið
þarna upp og þarfnast einskis leiðbeinanda framar: einbeittu þér
að horfa, því þetta auga eitt fær litið hina miklu fegurð. En hver
sá, sem kemur til þessarar sýnar glámskyggn af löstum og
óhreinsaður, eða veikburða og skortir manndóm til að líta hið of-
urskæra, hann sér ekki neitt þó svo að annar bendi honum á hvað
þarna er og hægt er að sjá. Því maður verður að koma til sýnar-
innar með hið sjáandi samkynja og líkt hinu séða. Ekkert auga
hefur nokkru sinni sólina litið án þess að vera sólarættar, né fær
sál séð fegurðina án þess að vera sjálf orðin fögur.39 Verði hann
35 Sbr. Platon, Ríkið 515 E-516 A.
36 Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 B-C.
37 Platon, Faídros 252 L).
38 Sama rit 254 B.
39 Hér leggur Plótínos út af Ríkinu 508 B-509 A.