Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 232
502
RÚNAR HELGI VIGNISSON
SKÍRNIR
lúkarinn. Nú var eins gott að taka vel eftir; hvernig snurpuvírinn var
dreginn ofan af spilinu, endinn þræddur í gegnum blökkina í gálgan-
um og hent niður í snurpubátinn, þar sem Konni þræddi hann í
gegnum snurpuhríngina og lásaði endanum í baujuna. (Pelastikk, 65-
66)
Þessar lýsingar og fjölmargar aðrar í sama dúr bera að sönnu vott um
áhuga höfundanna á að fræða lesandann um vinnubrögð á sjó. Þetta
mætti einnig túlka sem viðleitni þeirra við að sýna fram á að þeir þekki
vel til, eins og þeim finnist þeir þurfa að ávinna sér traust lesandans, enda
sé hann annaðhvort landkrabbi sem þurfi að leiða í allan sannleikann um
aðstæður um borð ellegar sjóari sem verði að finna sig í frásögninni.
Höfundarnir leggja áherslu á þessi atriði í viðtölum. Þannig talar Ey-
vindur P. Eiríksson um þá nauðsyn að þekkja vel til: „Ég held að sá
maður sem hefur ekki kynnst þessum heimi geti ekki skrifað um
hann“.10 Njörður P. Njarðvík tekur í sama streng í DV.n í viðtali í
Morgunblaðinu gengur hann reyndar skrefi lengra. Þar segir hann að
þegar notaður sé nýliði til að leiða lesandann um borð í togara - lesanda
sem hafi aldrei verið þar - verði „allt að vera satt og rétt“.12 Þetta kalli á
raunsæislega frásögn, því það sé regla í skáldskap að ef lýsa eigi einhverju
mjög óvenjulegu verði að gera það á venjulegan hátt og öfugt. Seinna í
viðtalinu upplýsir hann óvænt: „Allt í þessari sögu hefur gerst í raun-
veruleikanum.“ Það er engu líkara en Njörður sé að lýsa vinnulagi sagn-
fræðings fremur en skálds og kemur þar ef til vill skýringin á þeim heim-
ildaskáldsagnablæ sem sjóarasögur fá einatt.
Hvað ofangreindar bækur snertir velkist maður ekki í nokkrum vafa
um að höfundarnir þekki sögusviðið vel, eins og tilvitnanirnar bera vott
um. En það verður þeim að fótakefli fremur en hitt, því þeir festast í
sviðslýsingum og ná sjaldnast að skrifa leikritið sjálft. Það er eins og
hinn ytri veruleiki verði endastöð frekar en stökkpallur inn í skáldskap-
inn. Ef til vill hafa þessir höfundar aldrei spurt sig þeirrar spurningar
sem Svava Jakobsdóttir kveðst spyrja sig þegar hún er að semja; hvernig
hún geti „gert innri reynslu raunverulega í skáldskap".13 Eða er ytri
reynsla talin jafngilda innri reynslu þegar um sjómennsku er að ræða? Ef
til vill mætti þá snúa spurningu Svövu við og spyrja hvernig megi gera
ytri reynslu svo raunverulega í skáldskap að hún verði lesandanum innri
reynsla.
10 Lesbók Morgunblaðsins, 3. des. 1988.
11 DV, 18.nóv. 1993.
12 Morgunblaðið, 30. okt. 1993.
13 Úr greininni „Reynsla og raunveruleiki" í Konur skrifa til heiðurs Önnu Sig-
urðardóttur, Reykjavík, Sögufélag, 1980, bls. 222.