Skírnir - 01.09.1995, Blaðsíða 27
SKÍRNIR
TILURÐ HÖFUNDARINS
297
um hið gagnstæða og svo er vitanlega einnig í þessu tilfelli. En í
beinu framhaldi af lítillætistilburðum sínum setur Jónas fram
harðorða gagnrýni á íslenskan samtímaskáldskap. Fimmta erindi
hljóðar svo:
Abfrœba! hver mun hirða hér um fræði?
heimskinginn gjörir sig að vanaþræl,
gleymd eru lýðnum landsins fornu kvæði,
leirburðarstagl og holtaþokuvæl
fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður,
bragðdaufa rímu þylur vesæll maður.35
Jónas segir ennfremur í upphafi frægs ritdóms sem birtist í Fjölni
að rímur ,,eið[i] og spill[i] tilfinníngunni á því, sem fagurt er og
skáldlegt“.36 I greininni fellir Jónas þungan dóm yfir rímum
Sigurðar Breiðfjörðs af Tistrani og Indíönu en Sigurð telur hann
ekki gæddan „neinum verulegum skáldskaparanda". Þannig lýsi
það „frábærlegu „smekkleísi“ og tilfinníngarleísi á því, hvað
skáldlegt sje“ að Sigurður skuli hafa valið „svona ljótt og
heímskulegt“ efni sem söguna af Tistran og Indíönu til að yrkja
út af og hafa auk þess ekki tekist að glæða það neinu lífi eða
ferskleika, eins og skáld hefði gert:
Það er ekkert vit í því, að rímna-skáldin eigi að vera bundin við söguna.
Þau eiga miklu fremur, þegar þörf gjörist, að breíta henni á marga vegu,
búa til viðburði sjálfir og skapa hið innra líf þeirra manna, er sagan nefn-
ir, til að koma sem bestri skipun á efnið og gjeta síðan leitt það í ljós í
fagurlegri og algjörðri mind, ella verða rímurnar tómar rímur enn aldrei
neitt listaverk. Þetta hefir höfundur Tistransrímna ekkji borið við; hann
hefir látið sjer linda að koma vesælu efni í hendíngar [...]. (s. 22)
Það er fyrst og fremst krafan um frumleika sem rímurnar og
rímnaskáldin geta ekki uppfyllt, að mati Jónasar, formið er svo
gjörsamlega staðnað.
35 Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, I. bindi, Ljóð og lausamál, ritstjórar Haukur
Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson (Svart á hvítu, Reykjavík
1989, s. 116).
36 Jónas Hallgrímsson, „Um rímur af Tistrani og Indíönu“, Fjölnir 3 (1837, s. 18).