Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Side 52
allt þróað með sér hefðir sem byggt hafi á öðrum forsendum en musteris-
dýrkun. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að einnig á meðal þeirra hafi
virðingin fyrir musterinu haldið velli og að fleira en færra í helgihaldi þeirra
beri keim af virðingu fyrir musterinu heldur en skeytingarleysi í þess garð
enda þótt sýnagógan væri orðin þeirra samfundarstaður. Þannig er að finna
vitnisburð um að Gyðingar í dreifingunni hafi haldið (1) sumar helstu
hátíðir musterisins í heiðri og vitað er (2) að víða var safnað fjármunum
til að senda musterinu í Jerúsalem. Þá hefir einnig verið bent á (3) að
þær bækur sem einkum voru lesnar í sýnagógu dreifmgarinnar hafi verið
Mósebækur, spámannaritin og sálmarnir. í öllum þessum ritum skipar
musterið miðlægan sess.8 Prestarnir eða Saddúkear eru ekki aðeins þjónar
guðsdýrkunarinnar í musterinu heldur einnig túlkendur ritninganna og þar
með talið lagatúlkendur. I Nýja testamentinu er oftast dregin upp neikvæð
mynd af þeim: Þeir eru þröngsýnir ef ekki gamaldags í samanburði við
Farísea sem þó standast ekki samanburð við Jesú eða lærisveina hans.9
Musterið er þannig miðlægt á meðal Gyðinga jafnt í Jerúsalem sem í
dreifmgunni. Mynd þess og áhrif eru með öðrum orðum engan veginn
bundin við texta sem fyrst og fremst eru helgaðir fórnardýrkuninni í
musterinu. Jafnvel í textum sem við fyrstu sýn gætu virst grundvallast á
óskyldri orðræðu eins og heimsslitabókmenntum og spekiritum er musterið
aldrei langt undan. í spádómsbók Esekíels verður endurreisn musterisins
kjarninn í sýn um hinsta veruleik heimsins (Esk 40-44). Og í eins ólíku
bókmenntaverki og Síraksbók skipar musterið miðlægan sess. Jafnvel í
Ræðuheimild samstofnaguðspjallanna er musterið aftur komið í fókus í
lokaútgáfu hennar.10 I Nag Hammadi ritunum er að finna dæmi um hlut-
verk musterisins og eins í dulspekiritum Gyðinga enda þótt vísunin sé ekki
ævinlega í einhvers konar veraldlegt mannvirki.* 11 Þrátt fyrir að musterið eða
örkin sé í sumum myndlíkingum varðveislustaður lögmálsins á líkan hátt
8 Sbr. Stanley K. Stowers, „Does Pauline Christianity Resemble a Hellenistic Philosophy?" 2001,
s. 83-89.
9 Sjá t.d. Anthony J. Saldarini, Pharisees, Scribes and Sadducees in Palestinian Society 2001, s.
hvarvetna.
10 Sjá t.d. Jonathan Z. Smith, To Take Place: Toward Theory in Ritual 1987, s. 1-95 (um Esekíel);
Claudia V. Camp, „Storied Space, or, Ben Sira „Tells“ a Temple" 2002 (um Síraksbók) og John
S. Kloppenborg, The Formation of Q: Trajectories inAncient Wisdom Collections 1987, s. 246-262
(um Ræðuheimildina).
11 Sjá t.d. George MacRae, „The Temple as a House of Revelation in the Nag Hammadi Texts“
1984, s. 175-190 (um musterið í Nag Hammadi ritum); Gershom Scholem, Major Trends in
Jewish Mysticism 1995, s. hvarvetna (m.a. um musterið í dultrúarhreyfmgum Gyðinga).
50