Milli mála - 01.06.2016, Page 177
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR
Milli mála 8/2016 177
Notkunin sem hér hefur verið lýst er að miklu leyti í samræmi
við stafsetningarreglur þær sem Málfarsbankinn5 mælir með og
byggjast á skoðunum Ingólfs Pálmasonar (1987). Kjarni þeirra er sá
að ættarnöfn sem borin eru af körlum fái oftast endingu í eignarfalli
(séu skilyrði fyrir hendi) enda sé það í samræmi við málhefðina.
Eins og rakið er þá er endingin oftast -s en sumum tilvikum þó -ar.
Á hinn bóginn segir Ingólfur að ættarnöfn kvenna séu að jafnaði
óbeygð; þar á hann við að þau taki ekki eignarfallsendingu. Enda
þótt skoðanir og vilji Ingólfs fari ekki á milli mála segir hann líka
að ættarnöfn karla séu ekki alltaf beygð í eignarfalli. Stundum fái
t.d. aðeins skírnarnafn karlsins endingu en ættarnafnið ekki alltaf.
Eins og fram hefur komið fylgja ættarnöfn ekki alltaf ákveðinni
reglu. Í því sambandi er forvitnilegt að líta til svonefndra milli-
nafna.6 Samkvæmt áðurnefndum mannanafnalögum er heimilt að
gefa barni eitt millinafn auk eiginnafns eða eiginnafna. Millinöfnin
eru ekki kyngreind; bæði kynin geta borið sama nafnið. Lögin gera
þannig skýran greinarmun á eiginnöfnum annars vegar og milli-
nöfnum hins vegar. Sú hefur þó ekki orðið raunin á meðal almenn-
ings enda er það úbreidd skoðun að millinafn sé seinna nafn af
tveimur. En millinöfnin eiga miklu meiri samleið með ættar-
nöfnum. Algengt er að millinafn gegni hlutverki ættarnafns og
fylgi sama beygingarmynstri, þ.e. fái/geti fengið eignarfallsendingu
sé nafnið borið af karli en ekki eigi kona í hlut.7 Þetta sýnir því vel
sérstöðu ættarnafna og millinafna gagnvart eiginnöfnum og raunar
nafnorðum, sérnöfnum sem samnöfnum, sem alltaf beygjast. En í
ljósi hlutverks eiginnafna væri í sjálfu sér ekkert skrýtið þótt óþarft
þætti að beygja þau enda eru þau eiginlega merkingarlaus8, í raun
og veru aðeins hálfgildings merkimiðar sem hafa lítið opinbert gildi
5 Sjá http://malfar.arnastofnun.is/
6 Það sem segir um millinöfn er að hluta til byggt á grein Guðrúnar Kvaran (2010).
7 Taka má hér dæmi af nafninu Gnarr sem er skráð sem millinafn, sbr. https://www.island.is/manna-
nofn/, en ekki ættarnafn enda hvergi skráð sem slíkt sjá http://www.arnastofnun.is/page/aettar-
nofn_a_islandi, Ekki fer á milli mála að nafnið er þó notað þannig. Mörg dæmi eru um að nafnið
fái eignarfallsendinguna –s enda þótt miklu fleiri séu um endingarleysi. Hér koma tvö:
iv. Hér fer á eftir sýnishorn af kveðskap Jóns Gnarrs. Þjóðviljinn 53. árg. 1988, 117. tbl., bls. 6;
timarit.is
v. Ljóð Jóns Gnarr eru ýmist stutt eða löng. Morgunblaðið 75. árg. 1988, 103. tbl., bls. 10;
timarit.is
8 Um (meint) merkingarleysi eiginnafna má vísa til Lyons (1977:198): „ […] it is widely, though
not universally, accepted that proper names do not have sense.“ Þetta er þó túlkunaratriði.