Milli mála - 01.06.2016, Page 185
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR
Milli mála 8/2016 185
(8) a. Myndlistarsýning Ásgerðar Ester Búadóttur og Benedikts
Gunnarssonar. Hefir nú staðið yfir um skeið í Sýningarsalnum
við Ingólfsstræti.
Morgunblaðið 45. árg. 1958, 97. tbl., bls. 2; timarit.is
b. Myndlistarsýningin Ásgerðar Esters Búadóttur og Benedikts
Gunnarssonar í Sýningarsalnum við Ingólfsstræti hefir nú
staðið yfir í 10 daga.
Tíminn 42. árg. 1958, 95. tbl., bls. 1; timarit.is
c. Myndlistarsýning Ásgerðar Esterar Búadóttur og Benedikts
Gunnarssonar í Sýningarsalnum við Ingólfsstræti, sem ljúka
átti þ. 1. maí, hefur nú verið framlengd vegna mikillar
aðsóknar til sunnudagskvölds.
Alþýðublaðið 39. árg. 1958, 98. tbl., bls. 12; timarit.is
Dæmin í (8) þar sem Ester er seinna nafnið af tveimur sýna það sama
og öll hin dæmin: beygingin er á reiki. Eins og áður sagði skortir
mjög dæmi af sama toga enda hefðu fleiri dæmi kannski getað
varpað frekara ljósi á málið. Það er t.d. vel þekkt að standi tvö nöfn
saman er seinna nafnið stundum óbeygt, að því tilskildu að það sé
sterkbeygt.26
Enda þótt flestir beygi Esterarnafnið eins og við er að búast fer
ekki á milli mála að eignarfallsformið hefur vafist fyrir ýmsum. Það
votta heimildir.
4. Önnur kvenmannsnöfn
4.1 Um nöfnin Rut, Inger, Dagmar, Rakel, Bóel og Júdit
Í (6) var nafninu Rut spyrt saman við Ester og þess getið að það væri
stundum endingarlaust í eignarfalli. Rut er biblíunafn og í
Guðbrandsbiblíu er eignarfallsformið (líklega) alltaf endingarlaust.
Hið sama votta líka ung dæmi.27 En það sem kemur kannski á óvart
26 Á netinu má finna mörg dæmi þessa, t.d. Ásdísar Rán í stað Ránar og Unnar Dís í stað Dísar. Mörg
fleiri sambærileg dæmi er að finna, þ.á m. þegar Rut er seinna nafnið. Um Rutarnafnið verður rætt
hér á eftir.
27 Þorvaldur Gylfason (2004) minnist á beygingu nafnsins Rut og getur þess að hann hefði heyrt það
haft endingarlaust í eignarfalli. Því er við að bæta að á timarit.is eru mörg dæmi um ritháttinn
Ruth. Þá getur eignarfallið verið endingarlaust en getur líka fengið endingarnar -s og -ar. Ekki
verður betur séð en að í öllum tilvikum sé nafnið í frásögn af erlendum uppruna.