Milli mála - 01.06.2016, Side 230
GRÍMUR THOMSEN OG FRAMANDGERVING PINDARS
230 Milli mála 8/2016
Hugmyndir Schleiermachers spruttu úr frjóum jarðvegi.26 Þýskar
þýðingar frá átjándu og nítjándu öld voru margar hverjar næsta orð-
réttar. Þannig þýddi Voss Hómerskviður (1781 og 1793) eins orð-
rétt og hann gat. Skoðun Schleiermachers kom því ekki eins og
þruma úr heiðskíru lofti, heldur tjáði hún viðhorf sem í megina-
triðum var nokkuð tryggt í sessi. Þýðingar Voss höfðu reyndar
mikil áhrif á Sveinbjörn Egilsson, sem einnig þýðir lygilega orðrétt.
Þýðingar Hölderlins á Sófóklesi og Pindar – eftirlæti Gríms – eru
líklega með skýrustu dæmum um framandgervingu frá rómantíska
tímanum.
Reyndar er athyglisvert hversu mikla áherslu Grímur leggur á að
þýða Pindar, myrka skáldið sem enginn skildi, torræðasta skáld
sögunnar.27 Það virðist þó ljóst að honum þótti sem kvæði hans
gætu bætt íslenskan kveðskap samtímans. Þessi sýn á mikilvægi
Pindars, ásamt því viðhorfi að þýðandinn leiði lesandann inn í heim
frummálsins, er hliðstæð ásetningi Hölderlins, sem reyndar hafði
gengið miklu lengra en Grímur og þýtt Pindar nánast orðrétt án
nokkurrar málamiðlunar.28
Á nítjándu öld var Schleiermacher talsmaður framandgervingar,
sem að hans dómi átti að þjóna því hlutverki að auðga þýskar bók-
menntir. Á síðustu áratugum hefur annar málsvari framandgerv-
ingar gert grein fyrir máli sínu, þótt vitaskuld á öðrum forsendum
sé, en það er Lawrence Venuti. Hann vísar menningarlegri þjóð-
ernishyggju Schleiermachers á bug en mælir reyndar ekki með
neinni sérstakri þýðingaraðferð annarri en þeirri að hafna gagnrýnis-
lausri kröfu um þann læsileika sem gerir lesendum svo auðvelt
fyrir að sú staðreynd gleymist, eða á að gleymast, að um þýðingu sé
að ræða.29
26 Ástráður Eysteinsson (1996: 75-80) gerir grein fyrir skoðunum Schleiermachers og segir m.a.:
„Menn skynjuðu hversu mikilvæg samtímadeigla fólst í glímu þýðenda eins og Wilhelms von
Humboldts, Johanns Heinrichs Voss og Friedrichs Hölderlins við hin forngísku verk. Þarna mátti
sjá kvika og gagnvirka sambúð hins rómaða hefðarveldis og bókmenntamáls sem var á frjóu mót-
unarskeiði“ (75-76).
27 Sjá Hamilton (2003).
28 Sjá Constantine (1978). Hölderlin galt þess reyndar, að mati Constantines, að hann var lítill fíló-
lóg: „Had Hölderlin been as great a classicist as he was a poet then something very extraordinary
indeed would have come of his pushing always deeper into the literal meaning. But, as his detrac-
tors were pleased to point out, he did not have that scholarship, and probably his search for the
basic meaning of a word could never be more than a lexical matter.“
29 Sjá Venuti (1995: 99-100, 148). Ástáður Eysteinsson hefur fjallað um báða höfunda (1996: 76-82,
136-38).