Milli mála - 01.06.2016, Síða 232
GRÍMUR THOMSEN OG FRAMANDGERVING PINDARS
232 Milli mála 8/2016
– en voru þá þýðingarnar til einskis? Hann hyggst líta á kvæðin
sjálf, „sem þýðingar og sem skáldskap“:
Við ummæli skáldsins, að þýðingarnar séu langt frá því að ná frumkvæð-
unum, mætti bæta, að sama á við um allar þýðingar og þó sérstaklega
þýdd ljóð. Þau geta verið jafngóður skáldskapur frumkvæðunum, ein-
stöku sinnum jafnvel betri, en þau verða aldrei söm. Samsvaranir tveggja
tungumála eru miklu ófullkomnari en ráða mætti af orðabókum, og hver
þýðandi verður með sjálfum sér að fara, þótt hann sé allur af vilja gerður
að laga sig eftir frumhöfundi. Grími hlaut að vera sú aðlögun í erfiðara
lagi, svo stirt sem honum var um kveðandi og tungutak hans sérstætt.
Honum tókst því betur sem hann íslenzkaði kvæðin meir, svo sem í hinni
snilldarlegu þýðingu Integer vitæ, – eða þegar hann sótti einungis erlenda
kveikju í kvæði sem hann frumorti að öðru leyti...“33
Þessi skilningur Sigurðar á þýðingum er athyglisverður.34 Kvæðin
eiga að vera staðfærð, endursamin, innblástur að íslensku kvæði. Að
hans mati var Grímur varla þess umkominn að veita íslenskum
lesendum þá sýn inn í grískan bókmenntaheim sem yfirfærði text-
ann þannig að hann gæti heillað þá eins og um forngrískan texta
væri að ræða. Hitt er annað mál að enda þótt Grímur væri illa fall-
inn til þessa verks, þá væri það í raun og sannleika varla á færi
nokkurs þýðanda.
Sigurður taldi að Grímur hefði átt að staðfæra grísku kvæðin og
jafnvel nota þau einungis sem innblástur til að yrkja íslensk ljóð
handa Íslendingum. Sem sagt: Ásetningi Gríms er einfaldlega vísað
á bug, enda vitleysa. Grímur átti hvorki að þýða né gat hann þýtt í
samræmi við ásetning sinn, sem er Sigurði ljós, enda bætir hann
við:
33 Sigurður Nordal (1969: 45-46).
34 Hann samdi ritgerðina „Þýðingar“, Skírnir 1 (1919), 40-63. Sú ritgerð snerist fyrst og fremst um
þýðingar sem mikilvægan þátt í alþýðumenntun. Þar sýtir hann reyndar hversu einhæfar íslenskar
bókmenntir séu (50), mest skáldskapur og sagnfræði. Reyndar segir hann líka um hættuna af
skorti á þýðingum: „Hættan virðist vera sú, að meiri partur þjóðarinnar skiftist smátt og smátt í
þrjá flokka. Þá, sem ekkert lesa, nema dagblöðin. Þá, sem lesa tómt skran af versta tæi, dálka-
sögur blaðanna og annað þaðan af verra, svo sem bækur frá auðvirðilegustu útgefendum Dana, sem
seldar eru hingað í stórkaupum. Og loks þá, sem reyna að una sér við þjóðlegu bókmentirnar og
loka sig úti frá öllum áhrifum umheimsins, eins og af ótta við að annars rjúfist skjaldborg þeirra.“
(51). Greinin er skrifuð eftir lok fyrri heimsstyrjaldar.