Milli mála - 01.06.2016, Síða 296
AÐ IÐKA HEIMSPEKI ER ÍGILDI ÞESS AÐ LÆRA AÐ DEYJA
296 Milli mála 8/2016
Michel de Montaigne
Að iðka heimspeki er ígildi
þess að læra að deyja1
Cicero segir að það að iðka heimspeki sé ekki annað en að undirbúa
dauða sinn.2 Það er vegna þess að lærdómur og ígrundun draga á
vissan hátt sálina úr líkamanum og halda henni upptekinni utan
hans, sem er eins konar undirbúningur og æfing fyrir dauðann; eða
þá vegna þess að öll viska og veraldlegt hjal ákveða loks að kenna
okkur að óttast ekki dauðann. Satt að segja hlýtur skynsemin annað-
hvort að draga dár að okkur eða stefna að því að gera okkur ánægð,
og öll vinna hennar hafa það að leiðarljósi að gera líf okkar gott og
þægilegt, eins og segir í hinni heilögu ritningu.3 Allir deila þeirri
skoðun að ánægja sé markmið okkar þótt margar leiðir liggi þang-
að; ella myndum við skella við þeim skollaeyrum, því hver hlustar
á rödd sem hefði í hyggju að valda okkur þjáningu og leiða?
Deilur heimspekiskólanna um þetta efni snúast um orð.
„Transcurramus solertissimas nugas.“4 Þar er að finna meiri þrjósku og
hártoganir en sæmir svo virðulegri starfsgrein. En einu gildir hvaða
persónu maðurinn leikur því hann leikur ætíð sitt eigið hlutverk.
1 Hér er einkum stuðst við útgáfu Alberts Thibaudet og Maurice Rat: Montaigne, Œuvres complètes,
París, Gallimard, 1962 en ensk þýðing M. A. Screech er höfð til hliðsjónar: Michel de Montaigne,
The Complete Essays, London, Penguin Classics, 2003. Tilvísanir í þau fornu rit sem Montaigne
studdist við eru alla jafna fengnar úr frönsku útgáfunni og hafa skal í huga að þær eru ekki alltaf
í samræmi við þær útgáfur fornra texta sem nú eru til. Þýðandi hefur sjálfur snarað latneskum
textum nema annað sé tekið fram. Geir Þ. Þórarinssyni er færðar þakkir fyrir vandaðan yfirlestur
á latneskum textum og þýðingum.
2 Cicero, Tusculanae disputationes, I, 30: „Öll ævi heimspekinga, eins og Sókrates segir, er hugleiðing
um dauðann.“
3 Hér vitnar Montaigne í Gamla testamentið: „Ég sé að ekkert hugnast þeim betur en að vera
glaðir og njóta lífsins meðan það endist“; Préd III. 12 (Biblían, Hið íslenska biblíufélag, JPV
útgáfa, 2007, bls. 820).
4 [Förum hratt yfir þetta gáfulega gaspur. Seneca, Epistulae morales ad Lucilium, CXVII, 30]