Milli mála - 01.06.2016, Page 299
MICHEL DE MONTAIGNE
Milli mála 8/2016 299
ferðarinnar, sem blasir jafnan við þeim, hafi ekki breytt og deyft
bragð allra þessara hæginda?
Audit iter, numeratque dies, spacioque viarum
Metitur vitam, torquetur peste futura.10
Leið okkar liggur að dauðanum, það er hið nauðsynlega takmark
sem við stefnum að: ef hann skelfir okkur hvernig er þá hægt að
stíga fram á við, án uppnáms? Ráð hins óbreytta manns er að leiða
ekki hugann að honum. En hvaða heiftarlega heimska getur orsakað
slíka blindu? Það verður að láta hann beisla taglið á asnanum,
Qui capite ipse suo instituit vestigia retro.11
Það er engin furða að hann festist svo oft í gildrunni. Við hræðum
fólkið okkar við það eitt að nefna dauðann á nafn og flestir gera
krossmark eins og þegar djöfulinn ber á góma. Og vegna þess að
dauðinn er nefndur í erfðaskrám skulið þið ekki búast við að þeir
hefjist handa við gerð þeirra fyrr en læknirinn hefur kveðið upp
dauðadóm og Guð má vita hversu skýrir þeir eru í kollinum,
kvaldir og skelfdir, við þau skrif.
Þar sem orðið dauði lét of harkalega í eyrum þeirra og virtist
færa ógæfu lærðu Rómverjar að mýkja það, teygja og umorða. Í stað
þess að segja: hann er dáinn, hann er hættur að lifa, segja þeir: hann
hefur lifað.12 Svo lengi sem það er líf, þótt það sé liðið, finna þeir
huggun. Þaðan fengum við að láni okkar sálaða Jón Jónsson.
Ef til vill er það svo, eins og sagt er, að tíminn sem við höfum
lifað sé peninganna virði. Ég kom í þennan heim milli klukkan
ellefu og tólf, síðasta dag febrúarmánaðar árið 1533, samkvæmt
okkar tímatali, sem hefst í janúar.13 Það eru ekki nema tvær vikur
síðan ég varð 39 ára, ég verð að lifa að minnsta kosti jafnlengi; það
væri hins vegar glapræði að flækja sig í hugsanir um svo fjarlæga
10 [Hann spyrst vegar og telur dagana, mælir líf sitt út frá vegalengdinni, kvelst af þeirri angist sem
bíður hans. Claudius Claudianus, In Rufinum, II, 137–138]
11 [Því hann hefur ákveðið að snúa aftur á bak þegar hann gengur. Lucretius, De Rerum Natura, IV,
472]
12 Fengið að láni úr Cicero, XXII eftir Plútarkos.
13 Karl 9. Frakklandskonungur lét færa fyrsta dag ársins frá páskum til 1. janúar árið 1564. Skipun
hans var framkvæmd 1. janúar 1567.