Milli mála - 01.06.2016, Blaðsíða 309
MICHEL DE MONTAIGNE
Milli mála 8/2016 309
ættum við að óttast að missa eitthvað sem ekki er hægt að sakna
þegar það er glatað, og úr því að dauðinn ógnar okkur á svo marga
vegu er þá ekki verra að óttast þá alla en að umbera einn?45
Hverju skiptir hvenær það verður fyrst hann er óumflýjanlegur?
Þegar sagt var við Sókrates: „Harðstjórarnir þrjátíu dæmdu þig til
dauða,“ þá svaraði hann: „Og náttúran dæmdi þá.“46
Þvílíkur kjánaskapur að hafa áhyggjur af því hvernig við kveðj-
um þennan heim og losnum við allar áhyggjur.
Rétt eins og fæðing okkar fæddi af sér og færði okkur alla hluti
mun dauði allra hluta færa okkur okkar eigin dauða. Þess vegna er
jafnheimskulegt að gráta það sem við munum ekki lifa eftir hundr-
að ár og að gráta það sem við lifðum ekki fyrir hundrað árum.
Dauðinn er upphaf annars lífs. Þannig grétum við: þannig þurftum
við að greiða fyrir að koma inn í þetta líf; á sama hátt losuðum við
okkur við okkar forna hjúp við komuna hingað.
Ekkert getur valdið sorg sem gerist aðeins einu sinni. Er ástæða
til þess að óttast svo lengi eitthvað sem varir svo stutt? Dauðinn
leggur langlífi og skammlífi að jöfnu. Vegna þess að hið langa og
hið skamma tilheyrir ekki hlutum sem ekki eru lengur. Aristóteles
sagði að það væru lítil dýr á Hypanis-ánni sem lifa aðeins í einn
dag.47 Það þeirra sem deyr klukkan átta að morgni deyr ungt; það
sem deyr klukkan fimm síðdegis deyr í hárri elli. Hver okkar hlær
ekki að því hvort þessi andartaksstund sé kölluð hamingja eða
óhamingja? Hvort okkar eigin er lengri eða skemmri, ef við berum
hana saman við eilífðina eða ævilengd fjallanna, ánna, stjarnanna,
trjánna og jafnvel sumra dýra, er ekki síður hlægilegt.
En náttúran neyðir okkur til þess.48 „Kveðjið, segir hún, þennan
heim eins og þið komuð þangað inn. Farið sömu leið frá lífinu til
dauðans og þið fóruð frá dauðanum til lífsins, án ástríðu og án ótta.
Dauði ykkar er hluti af gangverki alheimsins, hluti af lífi heimsins,
inter se mortales mutua vivunt
45 Hér styðst Montaigne við kafla úr ritinu Um borgríki Guðs (De civitate Dei contra paganos) I, 2 eftir
heilagan Ágústínus.
46 Diogenes Laertios, Vitae philosophorum, II, v, 25.
47 Þýtt úr Tusculanae disputationes, I, 34, eftir Cicero.
48 Í einræðu náttúrunnar, sem hér hefst, sækir Montaigne einkum innblástur í verk Lucretiusar, De
Rerum Natura, III, og Senecu.