Milli mála - 01.06.2016, Blaðsíða 313
MICHEL DE MONTAIGNE
Milli mála 8/2016 313
heldur viljinn sem segir til um hvort þið hafið lifað nóg. Hélduð þið
að þið kæmust aldrei þangað sem þið stefnduð? Allir vegir enda
einhvers staðar. Og ef félagsskapur getur létt ykkur lífið, eru þá
ekki allir á sömu leið og þið?
omnia te vita perfuncta sequentur.63
Er ekki allt á sömu ferð og þið? Er eitthvað sem eldist ekki jafn-
mikið og þið? Þúsundir manna, þúsundir dýra og þúsundir annarra
vera deyja á sama andartaki og þið:
Nam nox nulla diem, neque noctem aurora sequuta est,
Quœ non audierit mistos vagitibus œgris
Ploratus, mortis comites et funeris atri.64
Til hvers hörfið þið ef ekki er hægt að komast undan. Þið hafið séð
næg dæmi þess að menn voru sáttir við að deyja og komust þannig
hjá margri ógæfunni. En hafið þið hitt einhvern sem kom þetta illa?
Því er það mikil einfeldni að fordæma nokkuð sem þið hafið hvorki
reynt á eigin skinni né annars. Af hverju kvartar þú undan mér og
örlögunum? Höfum við sýnt þér ranglæti? Átt þú að stjórna okkur
eða við þér? Þótt aldur þinn sé ekki hár er lífi þínu lokið. Lítill
maður er heill maður, eins og sá stóri.
Það er hvorki hægt að mæla mennina né líf þeirra í alinum.
Keiron afþakkaði ódauðleikann þegar sjálfur guð tímans og varan-
leikans, Satúrnus, faðir hans, sagði honum hvað í honum fólst.
Hugsið ykkur hversu óbærilegt varanlegt líf yrði manninum og
erfiðara en það líf sem ég gaf honum. Ef þið hefðuð ekki dauðann
mynduð þið bölva mér án afláts fyrir að hafa tekið hann frá ykkur.
Vísvitandi blandaði ég í hann dálitlum biturleika, þar sem hann er
svo auðveldur í notkun, til þess að hindra ykkur í að taka of miklu
ástfóstri við hann. Til að halda ykkur í þessari hófstillingu, að flýja
hvorki lífið né dauðann, sem ég vil að þið temjið ykkur, mildaði ég
hvort tveggja með mýkt og beiskju.
63 [Allt mun fylgja þér í dauðann að lífinu loknu. Lucretius, De Rerum Natura, III, 968]
64 [Aldrei hefur nótt fylgt degi og dagur nótt án þess að heyra megi, í bland við vælið í börnum,
sorgargrátinn sem fylgir þeim látnu og jarðarför þeirra. Lucretius, De Rerum Natura, II, 578–580]