Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 39
38
einhvers virði. Báðir ráku þeir skóla og væntanlega þótti gott fyrir ímynd
skólans að vera „heimspeki-skólinn“ í Aþenu. Platon vann að lokum þennan
slag, eins og við vitum, og þar með varð fyrirbærið heimspeki til eins og
við þekkjum það.41 Í kjölfarið spruttu upp fleiri heimspekiskólar.
Díógenes Laertíos (3. öld e.o.t.) og Síseró (1. öld f.o.t.) halda því hins
vegar fram að Pýþagóras hafi fyrstur manna kallað sig filosofos og þetta
virðist hafa verið almenn skoðun í fornöld – og reyndar langt fram á okkar
daga. Heimildir þeirra virðast þó hafa verið óáreiðanlegar og ekki hægt
að rekja lengra aftur en til 4. aldar, til Herakleidesar frá Pontos, sam-
starfsmanns Aristótelesar (Síseró vísar til Herakleidesar, sem upphaflega
tilheyrði Akademíu Platons).42 Ólíklegt má teljast að hann hafi haft góðar
heimildir fyrir því að Pýþagóras sjálfur hafi kallað sig filosofos (enda á
Pýþagóras ekki að hafa skrifað neitt) og almennt er þetta ekki talin áreið-
anleg heimild. Reyndar er ekki ólíklegt að Herakleides sjálfur hafi gefið
Pýþagórasi þennan titil.43
Elstu öruggu heimildir um notkun orða með stofninum filosof eru
sagnaritararnir Heródótos (frá seinni hluta 5. aldar) og Þúkýdídes (rit-
aði sennilega sögu sína undir lok 5. aldar). Þeir nota reyndar ekki orðið
filosofía og ekki heldur filosofos heldur sögnina filosofeó, þ.e. að filosofera eða
„stunda heimspeki“. Heródótos lýsir því þegar Sólon fer í 10 ára ferðalag
41 „The discipline of philosophy emerged at a certain moment in history. it was not
born, like a natural organism. Rather, it was an artificial construct that had to be
invented and legitimized as a new and unique cultural practice.“ Sama rit, bls.
14. Sjá líka Michael Frede, „Figures du philosophe“, Le Savoir Grec. Dictionnaire
Critique, ritstj. Jacques Brunschwig og Geoffrey Lloyd, Paris: Flammarion, 1996,
bls. 39–56. Þess ber þó að geta að Ísókrates lagði grunn að menntakerfinu og list-
unum sjö á miðöldum og hafði þannig gífurleg áhrif á menntakerfið allt fram á
okkar daga.
42 Um Herakleides og tengsl hans við Akademíu Platons og Lýkeum Aristótelesar sjá
Jørgen Mejer, „Heraclides' intellectual Context“, Heraclides of Pontus. Discussion,
ritstj. William W. Fortenbaugh og Elizabeth Pender, New Brunswick, London:
Transactions Publishers, 2009, bls. 27–40. Tilvitnunin er úr (glötuðu) verki sem
hét Um konuna sem hætti að anda og segir frá kraftaverkum Empedóklesar (sem kom
konunni til að anda). Síseró – í Tusculanes V, 3, 8 – segir söguna eftir Herakleidesi.
Leon nokkur spyr Pýþagóras um í hvaða fagi (arte) hann sé sérfræðingur. Pýþagóras
svarar að hann sé ekki sérfræðingur í neinu fagi en hins vegar sé hann heimspek-
ingur (sed esse philosophum). Í næsta kafla skýrir hann nánar hvað í því felst.
43 „Meanwhile φιλοσοφός and φιλοσοφία are not attested with the Pythagoreans;
hence the final stroke in the portrait of Pythagoras the philosopher evidently
belongs to Heraclides.“ Leonid Zhmud, Pythagoras and the Early Pythagoreans,
Oxford: Oxford University Press, 2012 [1994], bls. 430.
eiRíkuR smáRi siguRðaRson