Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 74
73
vísindalegum orðaforða yrði bætt við M og hann notaður í fullri alvöru. Þá
myndi goðsögulegi orðaforðinn annaðhvort hverfa eða verða mál skraut.
Ekki væri hægt að nota hann í bókstaflegri merkingu, fyrir vikið myndi
M breytast svo mikið að tala mætti um nýtt mál, M2.97 Að breyttu breyt-
anda gæti slíkt hið sama gilt um orðaforða tveggja hópa vísindamanna
sem stunda rannsóknir á sama sviði. Annar gæti haft auðugri orðaforða
en hinn og tilraunir til að skapa hliðstæðan orðaforða hjá „fátæka“ hópn-
um gæti leitt til róttækra breytinga á orðaforða hópsins. Þannig má kalla
M og M1 „ósammælanleg tungumál“ með hvort sitt hugtakaskema. Hið
sama gildir um „mál“ vísindahópanna. Hugtökin um hugtakaskema og
ósammælanleika eru því ekki inntakslaus, gagnstætt því sem Davidson
heldur. En þau eru örugglega inntaksrýrari en Kuhn hélt þegar hann skrif-
aði Vísindabyltingar. Athugið að vörn mín fyrir hófsaman ósammælanleika
kann að vera í samræmi við seinni hugmyndir Kuhns um óróttækan sam-
mælanleika. Athugið líka að það er reynsluatriði hvort hófsamur/óróttæk-
ur ósammælanleiki leikur hlutverk í sögu vísindanna.
Hvað sem því líður þá hefði Kuhn alveg getað forðast vanda hins
róttæka ósammælanleika hefði hann gengið í smiðju túlkunarfræðinnar.
Reyndar sagði hann sjálfur að hugmyndir sínar séu skyldar túlkunarfræði
og talar um áhrif þeirra fræða á rannsóknir sínar á sögu vísindanna.98
Túlkunarfræðingar segja að við túlkum merkingarbær fyrirbæri með
þeim hætti að við skiljum hið einstaka út frá heildinni, heildina í ljósi hins
einstaka. Til dæmis skiljum við einstakar setningar í ljóði út frá ljóðinu
sem heild og öfugt (talað er um túlkunarhring, við förum frá einstökum
setningum ljóðsins til heildarinnar og frá henni aftur til einstakra setn-
inga).99 Ljóðið sjálft er svo hluti, forsendur okkar og fordómar heildin
sem við túlkum ljóðið út frá, um leið og við getum endurtúlkað einhverjar
af forsendum okkar í ljósi ljóðsins. Ekki eru til ótúlkaðar, blákaldar stað-
reyndir, við erum lokuð inni í túlkunarhringnum.100 Heimfæra má þessa
visku á kenningar Kuhns með eftirfarandi hætti: Viðtakið er heildin, ein-
stakar kenningar og athuganir hlutarnir. Heild og hlutar eru aðeins skilj-
anleg í ljósi hver annarra, enginn mælikvarði handan viðtaksins er á ágæti
97 Hér gef ég mér að málnotkun hafi a.m.k. einhver áhrif á merkingu orða.
98 Thomas Kuhn, „Preface“, The Essential Tension, bls. xiii.
99 Athugið skyldleikann við kennisetningu Quines og Duhems.
100 Hans-Georg Gadamer, Wahrheit und Methode. Grundzüge einer philosophischen
Hermeneutik. Tübingen: J. C. B. Mohr (Paul Siebeck), 1990, bls. 270–295 og
víðar.
ViðTöK OG VÍSiNDi