Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 165
164
Draga aðferðir sterkrar hlutlægni stjórnmál inn í vísindi sem annars væru
hlutlaus? Nei. Sterk hlutlægni sýnir hvernig ráðandi pólitík hefur nú þegar
stýrt rannsóknaverkefnum og hvernig það kemur fram í niðurstöðum rann-
sókna. Og hún sýnir hvernig ýmis annars konar pólitík (gegn upphafningu
karla, gegn upphafningu hvítra o.s.frv.) getur í reynd aukið þekkingu.
Stuðla aðferðir sterkrar hlutlægni að „sjálfsmyndarpólitík“ (e. „identity poli-
tics“)? Þessa spurningu má skilja á ólíka vegu. Hún gæti verið sú hvort með
því að „hefja rannsókn á lífi kvenna“ (eða lífi einhvers annars undirokaðs
hóps) sé gert ráð fyrir að konur eigi sameiginleg ýmis gildi eða reynslu,
og þar af leiðandi sameiginlega sjálfsmynd. Stundum geta rannsakendur
vissulega gert ráð fyrir því. En það er ekkert í „rökgerð“ sjónarhornsfræð-
innar sem kallar á þetta. Vert er að hafa í huga að rannsakendum er alltaf
ætlað að hefja rannsóknina á einhverjum tilteknum undirhópi kúgaðs hóps
– svo sem mæðrum í bandarískum alríkisfangelsum, eða konum í fram-
haldsnámi í bandarískum rannsóknaháskólum. Hugmyndir um hvað þessi
tiltekni undirflokkur kvenna á sameiginlegt geta verið réttmætar eða ekki.
Augljóslega skiptir það sköpum fyrir áreiðanleika niðurstaðna að athygli
sé beint að efnahagslegum, pólitískum, félagslegum, menningarlegum eða
öðrum þáttum sem aðgreina konur, gildi þeirra, reynslu og sjálfsmynd.
Það er einnig á misskilningi byggt að sjónarhornsfræðin telji að þekk-
ing þeirra sem tilheyra undirokuðum hópi sé alltaf rétt; að hún sé óskeik-
ul.31 Engar fullyrðingar geta sjálfkrafa hlotið samþykki. Fullyrðingar sjón-
arhornsfræða eru jafn skeikular og aðrar fullyrðingar. Hafa ber í huga að
ekki er hægt að staðfesta óáreiðanleika þekkingar með því að sýna fram á
að rannsakendur hafi haft einhverjar sérstakar ástæður eða hagsmuni af
því að afla hennar. Eins og bent hefur verið á hefur margvísleg áreiðanleg
þekking orðið til í rannsóknum sem stórfyrirtæki eða hernaðaryfirvöld
fjármagna, að ekki sé minnst á aðra aðila sem eiga mikilla hagsmuna að
gæta, svo sem á sviði heilbrigðismála og umhverfismála.
31 Í fyrstu verkum mínum notaði ég orðalagið „þekkingarfræðileg forréttindi“ (e.
„epistemic privilege“) til að lýsa viðfangsefni sjónarhornsfræða. Ég hafði í huga
hvernig frásagnir kvenna um nauðganir og heimilisofbeldi, um líkamlegar upplif-
anir sínar, áreitni, óréttlæti sem þær mættu á vinnustað o.s.frv., voru sífellt taldar
ósannfærandi. Hugtakið „þekkingarfræðileg forréttindi“ afvegaleiddi hins vegar
suma lesendur sem gerðu ráð fyrir að ég héldi því fram að slíkar frásagnir væru
óskeikular, þrátt fyrir umfjöllun mína um hversu oft við endurskoðum reynslusögur
okkar eftir ábendingar og umsagnir frá meðferðaraðilum, sagnfræðingum og öðr-
um; þær geta alltaf verið skeikular. Ég nota ekki lengur þetta orðalag.
sanDRa HaRDing