Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Síða 56
J ó n Ó l a f s s o n
56 TMM 2009 · 4
af hugmyndalegum leiðtogum sósíalista og forstjóri Máls og menningar,
orðaði það svo í stuttri grein undir fyrirsögninni „Nýr áfangi“ sem hann
birti í Tímariti Máls og menningar sumarið 1944:
Vér höfum öðlast þjóðfrelsi, Íslendingar. Vér höfum stofnað lýðveldi á Íslandi.
Vér höfum náð því marki sem þjóðin hefur stefnt að í margar aldir. Og það var
fagnaðarrík stund, sameiginleg fagnaðarstund þjóðarinnar allrar, hvað sem
innri andstæðum líður. Lýðveldisstofnunin gefur oss ný þroskaskilyrði, nýja
framtíðarmöguleika.5
En sé horft lengra en til upphafningar þjóðernis – hverskonar áfangi var
þá lýðveldisstofnunin? Kristinn E. Andrésson setti hana í samband við
þroska þjóðarinnar – það er þroska allra þeirra sem tilheyrðu íslenskri
þjóð og sem áfanga að fullum þroska heildarinnar, þegar allsherjarvilji
þjóðarinnar birtist í sósíalísku skipulagi. Hann endar grein sína á þess-
ari draumsýn:
Ég sé í anda nýja þjóðhátíð á Íslandi. Alþingi hefur samþykkt stjórnarskrár-
breytingu er felur í sér að skipulag sameignarstefnunnar skuli í lög leitt á Íslandi.
Hin nýja stjórnarskrá sameignarskipulagsins er borin undir þjóðaratkvæði.
Áhugi almennings er brennandi, þátttakan í atkvæðagreiðslunni alger, og með
yfirgnæfandi meirihluta samþykkir þjóðin hina nýju stjórnarskrá, sem á að
tryggja Íslendingum einnig hið innra frelsi. Að atkvæðagreiðslunni lokinni er
eins og nú stofnað til þjóðhátíðar á Þingvöllum, og þangað flykkjast ungir og
gamlir hvaðanæfa af landinu og þá alfagnandi því að enginn uggur er framar í
brjósti. Hve sæll er sá Íslendingur, er þá þjóðhátíð lifir, þann þjóðarfagnað, sem
á eftir að hefja þjóðhátíð vora nú í hærra veldi.6
Það er merkilegt hvernig Kristinn setur lýðveldisstofnunina í samhengi
þroska, framfara og afnáms þess sem hann kallar „innri mótsagnir“. Það
er ljóst að við kringumstæður sannrar þjóðhátíðar eru það aðeins brjóst-
umkennanlegir bjálfar og fáráðlingar sem takast ekki á loft við innblást-
ur hins nýja skipulags þar sem völdin hafa verið færð þjóðinni, endanlega
og fyrir fullt og allt. Innblásinn þjóðarvilji birtir í senn beinan vilja allra
(sem eru með réttu ráði) og raunverulega hagsmuni allra.
Kristinn E. Andrésson var kommúnisti. Hann trúði á Sovétríkin og
Sovét-Ísland og það hvarflaði ekki annað að honum en að byltingin
myndi skapa ríki velferðar og réttlætis. Og hún gæti birst sem þjóðhátíð,
atkvæðagreiðsla eða blóðug barátta. Þó að samblöndun þjóðernishyggju
og kommúnisma sé, þegar litið er til hugmyndafræði kommúnismans,
óvænt blanda er auðvelt að skilja innblástur Kristins og þótt þjóðernis-
hyggja hafi ekki einkennt kommúnista í Vestur-Evrópu, átti hún vissan
samhljóm innan valdaflokkanna í Austur-Evrópu.
TMM_4_2009.indd 56 11/4/09 5:44:38 PM