Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Side 133
D ó m a r u m b æ k u r
TMM 2009 · 4 133
skeiðinu sem Sunna skipuleggur, námskeiðinu þar sem kennt er hvernig eigi að
skrifa sakamálasögu. Þetta mætti líka orða sem svo að undir lokin útskrifast
lesandi af námskeiðinu sem bókin sjálf sviðsetur. Þessi metafóríska mynd af
sjálfsögulegri þátttöku skáldsögunnar í eigin tilbúningi getur jafnvel skýrt
suma þá galla sem finna má á verkinu og lúta að byggingarþáttunum saka-
málafléttunnar. Bókin bókstaflega gerir viðvaningsskap við sakamálaskrif að
viðfangsefni, og því e.t.v. ekki að undra að hún beri sjálf nokkur merki viðvan-
ingsskapar þegar kemur að sakamálafléttunni, þegar hún loks kemst á flug, og
úrlausn hennar. Á einum stað er meira að segja birt barnslegt framlag Helga til
sakamálanámskeiðsins; skilaboðin eru e.t.v. þau að það sé í lagi að vera „naíf“
á þessu sviði ef hjartað er á réttum stað.
6.
Skáldsagan sem Auður sendi frá sér á undan Vetrarsól, Tryggðarpantur (2006),
fjallaði um ósamstæðan hóp af konum sem lífið hafði varpað saman af tilvilj-
un. Vetrarsól endurtekur að nokkru leyti þessa grundvallarformgerðarhugsun.
Í fortíðarköflum bókarinnar kynnumst við þremur konum sem eiga fátt sam-
eiginlegt annað en að örlagaþræðir þeirra hafa tvinnast saman í borg sem þeim
er öllum ókunnug. Í Tryggðarpanti segir frá Gísellu, miðaldra konu sem lifir
hinu ljúfa lífi í ónefndri evrópskri stórborg (spænsk borg kemur sterklega til
greina, því ekki Barcelona?), en vaknar upp við þann vonda draum að arfurinn
sem hafði fleytt henni áfram í gegnum lífið er uppurinn. Lausnin á fjárhags-
vandræðunum er að safna saman hópi af meðleigjendum, konum sem eiga við
vandamál að glíma og vantar húsnæði (líkt og Napassorn í Öðru lífi) en raunir
þeirra ætlar hún sér að nota sem efnivið í grein fyrir byltingarsinnað tímarit á
vinstri vængnum (ein af mörgum aðferðum söguhöfundar til að hæðast, oft
mjög kaldranalega, að vitundarmiðju verksins). Í kjölfarið færist lesandi að
kjarna bókarinnar, þeirri merkingarhlöðnu formgerð sem höfundur hefur lagt
býsna mikið á sig til að koma í kring – hinu fjölmenningarlega samfélagi þar
sem Gísella, fulltrúi lyotardískra forréttinda og vestrænnar sjálfumgleði,
stjórnar framvindunni og reynir að móta „leigjendurna“ eftir sínu höfði. Hug-
myndin er góð þótt umgjörðin sé gölluð að því leytinu til að viðhorf söguhöf-
undar til vitundarmiðjunnar, Gísellu, er svo fullt andúðar og meinfýsinnar
fyrirlitningar að á köflum er sem sjónarhornið kæfi framvinduna, boðskap-
urinn er predikaður af of miklum þunga. Það er vandasamt að segja sögu frá
sjónarhorni sem höfundur er hugmyndafræðilega, siðferðilega og/eða pólitískt
ósammála, slíkt krefst nákvæmni og mikillar jafnvægislistar, og Auði tekst
ekki fyllilega að leysa verkið af hendi. Í Vetrarsól er ekki um jafn flókið frá-
sagnarlegt verkefni að ræða, stuðst er við hefðbundna fyrstu persónu frásögn
spennubókmennta, sögunni vindur fram í röð knappra undirkafla sem óhætt
er að segja að henti verkinu og höfundarrödd Auðar vel. Samband Vetrarsólar
við Tryggðarpant skýrist enn frekar þegar líður á fyrrnefndu bókina, en upp úr
miðju taka endurminningarnar um Barcelona sífellt að verða fyrirferðarmeiri.
TMM_4_2009.indd 133 11/4/09 5:44:46 PM