Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 17
Æ t l i v i ð n á u m n o k k u r n t í m a n n a ð s n e r t a v e r u l e i k a n n ?
TMM 2015 · 1 17
Kristín: Hringsól, þriðja bókin þín.
Álfrún: Þar gekk ég kannski út frá börnum sem var komið í fóstur og
urðu eiginlega að skipta um sjálf og verða önnur en þau voru. Ég þekkti tvær
konur sem hafði verið komið í fóstur og lentu hjá ágætu fólki en urðu aldrei
öruggar um hverjar þær væru. Svo er komið inn á þjóðfélagsátök og þessar
takmarkanir lífsins: hversu miklu ræður maður sjálfur um ævi sína og hve-
nær lætur maður undan umhverfisaðstæðum og hvenær ekki.
Kristín: Næsta skáldsaga: Hvatt að rúnum.
Álfrún: Já, ofbeldi af ýmsum toga liggur til grundvallar Hvatt að rúnum,
bæði í nánum samskiptum og annars staðar. Og hvernig höfundur sögunnar
notar persónurnar og hvernig hann ræður takmarkað yfir þeim og hvernig
persónurnar reyna að sneiða hjá honum og fara inn á braut sem ekki er hægt
að koma þeim af. Það er þessi togstreita sem alltaf er á milli manna og getur
leitt til ofbeldis, andlegs eða líkamlegs, og togstreituna má einnig finna í
sköpuninni sjálfri.
Kristín: Stórvirkið Yfir Ebrofljótið fjallar um Íslending sem berst í
spænsku borgarastyrjöldinni – viltu segja pínulítið frá henni?
Álfrún: Já, hvað get ég sagt þér um bókina Yfir Ebrofljótið? Á meðan
ég dvaldi á Spáni var bannað að tala um borgarastríðið opinberlega – það
var eins og stríðið hefði aldrei verið til, og það litla sem sagt var og skrifað
um það var í áróðursstíl, talað um: krossferð Francos, og annað í þeim dúr.
Það mátti ekki minnast á stríðið í kennslu og fræðibókum. Þegar eitthvað
er bannað hleypur forvitnin af stað. Ég fékk áhuga á efninu. Þegar ég bjó
þarna lifði ég afleiðingar borgarastríðsins svo að stríðið var mér ekki aðeins
hugstætt sem efniviður, heldur tók ég það inn á mig, eins og fólkið á Spáni
gerði. Ég ákvað að skrifa um þetta, koma reiðu á óreiðu, og las mikið, það
er mikið af efni sem liggur á bakvið ritsmíðina og mig langaði einhvern
veginn að taka á og finna fyrir því. Þó er tónninn í því ekki hetjuskapurinn,
heldur þvert á móti: hryllingurinn og tilgangsleysið. Það var verið að berjast
um einhverja pínulitla bæi dögum og vikum saman og fórna mannslífum í
hundraða tali á meðan. Þegar ekki má tala um hlut, eins og um stríð, verða til
svart-hvítar myndir af því: áróðurinn eins og ég talaði um áðan og svo góðu
hetjurnar; maður fann að báðar sögumyndirnar voru ýkjur.
Kristín: Á hrunárinu mikla kom út skáldsagan Rán og fjallar um dömu
sem eins og karlinn í Ebrofljótinu fer á vit fortíðarinnar en ekki bara í
huganum heldur leggur hún líka leið sína til Barcelona.
Álfrún: Í Rán kem ég aftur að afleiðingum borgarastríðsins og vildi hafa
nýja tímann með, þegar komin er velmegun og allt hefur farið á betri veg en
á horfðist. Afleiðingar stríðsins og svo nýi tíminn: það eru þessi þrjú lög í
bókinni, og þau eru framhald hvert af öðru.