Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Side 18
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
18 TMM 2015 · 1
Kristín: Siglingin um síkin, nýjasta bókin þín, nokkur orð um hana?
Álfrún: Kjarninn í Siglingunni um síkin er aðalpersóna sem reynir að ná
til annarra, að vísu á mjög fálmkenndan hátt. Hún er af ákveðinni kynslóð
og hefur ekki getað og getur ekki gert vissa hluti en hún reynir samt að ná til
annarra og það tekst í lokin – alveg öfugt við hrunið sem sundraði.
Kristín: Bestu þakkir fyrir þetta.
Álfrún: Ég hef alltaf litið svo á að skáld eigi að tala sem allra minnst um
verk sín.
***
Kristín: Viltu segja mér eitthvað um tímana sem við lifum meðan ég teikna
af þér myndina sem á að fylgja viðtalinu?
Álfrún: Við lifum á tímum þrúgandi heimsku. Heimskan er í mínum huga
áunnin, hún er ekki meðfædd. Í einræðisríki þá veistu við hvað er að etja.
Fólk spyrnir við fótum – valdstjórnin elur á samstöðu. En við í lýðræðinu
spyrnum ekki við fótum og vitum varla af eigin heimsku. Annaðhvort finnst
okkur hún allt í lagi eða við hugsum ekki lengra. Síðan hrunið varð hafa
menn margoft spurt: hver ber ábyrgðina? Það hefur orðið einhver valdatil-
færsla sem maður botnar ekkert í og enginn ber ábyrgð á neinu.
Kristín: Þú mátt tala, það truflar ekki teikninguna.
Álfrún: Það er eiginlega búið að eyðileggja lýðræðið, finnst mér, og hug-
myndina um það. Við höfum allar umbúðirnar: kosningar, alþingi, ríkis-
stjórn, en ekkert inntak, aðeins formið eitt. Kannski ber enginn ábyrgð
vegna þess að valdinu hefur verið
dreift á of marga aðila, ef til vill
hættir lýðræðið að virka ef farið
er útfyrir þanþol þess. Ríkið hefur
afsalað sér ýmsum völdum og dreift
þeim vítt og breitt. Maður ber ekki
sama traust til lýðræðisins og áður,
það verður ekki annað en við-
miðun, og kannski ekki einu sinni
viðmiðun lengur. Það kom eitthvað
fyrir lýðræðið, en ég veit ekki hvað
og velti fyrir mér: hvað gerðist?
Kristín: Þú hefur fínlega dregnar
varir sem erfitt er að teikna.
Álfrún: Nú er það?
Í Reykjavík, ágúst/september 2014