Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Blaðsíða 103
TMM 2015 · 1 103
Þorsteinn Antonsson
„Dularfullur gestur“
Um Markús Ívarsson og grimmd í
sögum Ástu Sigurðardóttur
1.
Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur skrifar um „Dýrasögu“ Ástu
Sigurðardóttur skáldkonu í grein sinni „Myndir“ í TMM 2. hefti 1986
meðal annars þetta: „Dýrasaga er þrungin innri spennu, full af táknum
og tvíræðni.“ Nefnd saga Ástu er freistandi viðfangsefni af fleiri ástæðum.
Einnig þeirri um tengsl höfundar við söguna sem farið verður frekar út í með
þessari grein en fyrr hefur verið gert á prenti.
Páll Ásgeir Ásgeirsson leggur út af grein Dagnýjar á netmiðlinum heimur.is
árið 2007 og segir: „Í lýsingum sínum sækir Ásta Sigurðardóttir í sína eigin
upplifun af kúgun og misbeitingu.“ Páll telur þetta einnig niðurstöðu
Dagnýjar um „Dýrasögu“.1 Sagan er eins og flestar aðrar eftir Ástu um
grimmilegt návígi manns og umheims hans og í þessu tilviki hryllilegt
ofbeldi fullorðins manns gagnvart barni. Um framgang flestra sagna Ástu
gildir, að annars vegar er maður, hins vegar umheimur og ekki er annað að
sjá en að á þessu tvennu sé eðlismunur, svo að hvorugt geti unað við hitt.
Heimurinn er samur við sig og vanmáttur manneskjunnar birtist til dæmis
í mynd barna sem verða fyrir ranglæti og er útmálað af slíkri kynngi að
freisting er að halda að verið sé að lýsa fólki úr lífi höfundarins sjálfs, jafnvel
eigin bernskureynslu – svo opin er kvikan.
Ekkert af því sem um bernsku Ástu er vitað gefur þó tilefni til að ætla
að kjör hennar á bernskuheimilinu, á fæðingarári hennar 1930 og fram á
upphafsár lýðveldisins, 1944, þegar hún fór að fullu að heiman, hafi verið
neitt í líkingu við lýsingar á þeim kjörum sem sögur hennar vitna um; svelti,
barsmíð og margskonar aðra niðurlægingu sem fram fer í sögum hennar
meðal þeirra kotunga sem hún gæðir lífi með leiftrandi frásagnargáfu sinni.
Fæðingarstaður hennar var bærinn Litla-Hraun á Mýrum. Þar bjó Ásta
til 14 ára aldurs hjá foreldrum sínum en flutti svo alfarin til Reykjavíkur.
Hún saknaði heimahaganna, en jörðin fór í eyði fáum árum síðar. Nátt-
úrulýsingarnar á næsta nágrenni við kotbýlið í grein hennar „Frá mýri,
hrauni og fjörusandi“2 – eru ljúfar og unaðsríkar; þær vitna um næmleika