Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Page 114
114 TMM 2015 · 1
Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014
Þrjár ræður
Í janúar síðastliðnum hlutu þau Snorri Baldursson, Bryndís Björgvinsdóttir og Ófeigur
Sigurðsson Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bækur sínar Lífríki Íslands, Hafnfirð-
ingabrandarinn og Öræfi. Hér eru þakkarræður þeirra:
Snorri Baldursson:
Forseti Íslands, útgefendur, höfundar, góðir gestir,
Fyrst af öllu langar mig að tjá stolt mitt og þakklæti fyrir þann mikla
heiður sem mér og bókinni Lífríki Íslands hefur verið sýndur. Þegar ég
lagði upp í þennan leiðangur í byrjun árs 2008 hvarflaði ekki að mér að
sjö árum síðar stæði ég hér á Bessastöðum til að veita viðtöku Íslensku
bókmenntaverðlaununum. Reyndar óraði mig ekki heldur fyrir því þá að
þessi vegferð yrði svona löng, en það er önnur saga.
Í upphafi var helsta markmið mitt að skrifa kennslubók í vistfræði Íslands
sem gæti hentað til náms í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum og
skapað grunn að staðgóðri þekkingu almennings á lífríki landsins, eðli þess
og starfsemi. Ég taldi þá og tel enn að nokkuð skorti á að náttúruþekking og
náttúruvitund Íslendinga sé nægilega góð og að þess vegna metum við landið
ekki að verðleikum oft á tíðum.
Það er að minnsta kosti þannig farið með mig að því betur sem ég kynnist
íslenskri náttúru þeim mun vænna þykir mér um hana eins og hún er, eins
og hún kemur af skepnunni – tilfinningum mínum til hennar er ef til vill
best lýst með orðum Fastagests úr bókinn Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson: „Ég
er fyrst og fremst á móti allri rækt, … ég er allur með Guði og náttúrunni,
mönnum, dýrum, plöntum og grjóti og jöklum og vindinum: ég er allur fyrir
öræfin.“
Vissulega höfum við farið illa með landið, en sú staðreynd réttlætir ekki
frekari spjöll undir yfirskini framfara. Græðimáttur íslenskrar náttúru er
mikill eins og berlega hefur komið í ljós eftir að loftslag hlýnaði. Þar sem
land fær frið dafnar blómgróður og birkiskógar breiðast út á nýjan leik –